143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég hef tamið mér eftir að ég fór að starfa í stjórnmálum er að fara um og hitta fólk og hlusta á hvað það hefur til málanna að leggja. Ég geri það af því að ég tel það eina af meginskyldum mínum sem kjörins fulltrúa á löggjafarþinginu. Oftast á ég afar ánægjuleg samskipti við fólk, gefandi og lærdómsrík og þau styrkja mig sem manneskju, en það gerist líka að fólk lætur gamminn geysa og eys úr skálum reiði sinnar og segir álit sitt umbúðalaust á stjórnmálamönnum og hvernig þeir virðist alltaf setja sérhagsmuni framar almannahagsmunum.

Nú í morgun hitti ég góðan eldri mann sem hefur að sögn fylgst með stjórnmálum alla tíð. Hans upplifun er sú að stjórnmálamenn, og þá sérstaklega þeir sem fara með valdið hverju sinni, meini aldrei nokkurn skapaðan hlut af því sem þeir segja. Þeir segi eitt, meini annað og framkvæmi svo jafnvel það þriðja. Hann klykkti síðan út með því að segja að það væri alls ekki skrýtið þó að virðing fyrir Alþingi og alþingismönnum sé nánast engin. Mér þótti ekki gott að heyra þetta en lít á það sem þarfa áminningu og brýningu á því hvers vegna ég er hérna inni, og þið. Ég tel mig og okkur þingmenn ekki vera byltingarfólk heldur manneskjur sem eigi að hlúa að og efla þau megingildi sem samfélagið er reist á, sem eru jafngildi, virðing og samábyrgð. Viðmið allra ákvarðana sem við tökum eiga að vera hagsmunir almennings og mælikvarðinn á að vera almannaheill. Hvað er best fyrir okkur sem þjóð?

Það er einnig veigamikill þáttur í fari okkar fulltrúa almennings að geta staðist freistingar valdsins og láta ekki undan eilífum þrýstingi sérhagsmunaaflanna og þeirra sem meira mega sín. Við erum að mörgu leyti fyrirmyndir sem fólk lítur til og eigum að taka allar ákvarðanir að vel ígrunduðu máli og með sanngirni að leiðarljósi. Okkar hlutverk er ekki síst að verja og efla hagsmuni og verðmæti þjóðarinnar.

Ég vil að lokum beina því til þingmanna enn og aftur að bera virðingu hver fyrir öðrum því að virðingin er svo þýðingarmikil í mannlegum samskiptum. Þannig byggjum við upp traust sem er aftur frumskilyrði mannlegra samskipta og heldur samfélaginu saman. Því meira traust sem ríkir á milli manna þeim mun haldbetra og heilbrigðara verður samfélag okkar.