143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Nú hefur verið lagt fram frumvarp um gjaldskrárlækkanir þar sem m.a. er lagt til að álögur á áfengi, tóbak, bensín lækki og umhverfis- og auðlindaskattur verði lækkaður. Við gerð fjárlaga 2014 voru gjöld á áfengi og tóbak hækkuð um 3% en hækkunin verður nú ríflega 2%. Allt er þetta gert í nafni þess að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar og launþega. Um er að ræða í kringum 190 milljónir einungis í áfengi og tóbaki.

Á sama tíma hefur ríkisstjórnin ákveðið að láta sjúklinga greiða hærri gjöld fyrir komu á sjúkrahús auk þess sem mikil hækkun hefur orðið hjá þeim sem nota þurfa hjálpartæki. Nú síðast í gær var birt reglugerð um greiðsluþátttöku þeirra sem þurfa sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun. Þessi gjaldskrárhækkun kemur sér afar illa, sérstaklega gagnvart öldruðum og öryrkjum sem margir eins og við vitum hafa úr litlu að spila. Dæmi eru um 473% hækkun í gjaldskránni. Annað dæmi er um hækkun hjá þeim sem eru með fulla tekjutryggingu og þurfa að fara í fimmtíu meðferðir í svona þjálfun á ári. Hún er um 38%. Það hefur komið fram að um 30% aldraðra og öryrkja hafa ekki efni á að nýta sér slíka þjónustu.

Varðandi áfengi og tóbak er ekki ólíklegt að margir birgjar og smásöluaðilar muni ekki lækka verðið á næstu mánuðum þar sem þeir eiga yfirleitt góðan lager. Einnig má segja að svo lítil breyting sé líkleg til að hverfa í tómið, hvað þá ef hún kemur ekki til með að sjást strax. Það má velta því fyrir sér hvernig á að fylgja því eftir.

Að ríkisstjórnin lækki áfengisgjaldið um 0,97% en hrófli ekki við 20% hækkun á heilbrigðisþjónustu, sem bitnar jú eins og við vitum mest á þeim sem minnst hafa, verður til þess að maður spyr sig fyrir hvern þessi ríkisstjórn sé eiginlega. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga. Hafi okkur fundist rangindi vera í kerfinu eigum við að laga og leiðrétta rangindin en ekki með því að setja á eða hækka sjúklingagjöld og lækka á sama tíma álögur á brennivín og tóbak.