143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fram kemur í skýrslu þeirri frá utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið sem rædd verður hér á eftir á bls. 94 að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skýri frá því í bréfi frá haustmánuðum að hún segi sig frá samstarfi í samráðshópi eða sérstökum vinnuhópi, sem settur var á laggirnar 2012 með þátttöku íslenskra stjórnvalda, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í ljósi breyttrar stöðu Íslands sem aðildarríkis.

Í fyrsta lagi er athyglisvert að frá þessu skuli ekki hafa verið skýrt opinberlega og að þetta komi þá fram og þyki fréttnæmt í þessari skýrslu mörgum mánuðum síðar. Það segir eitthvað um gagnsæið sem þarna er á ferðinni.

Í öðru lagi má velta því fyrir sér hvort hér sé öll sagan sögð. Kann það að vera svo að takmarkaður áhugi hafi verið fyrir því hér heima að halda þessu samráði áfram? Fróðlegt væri að það yrði upplýst.

Algerlega óháð stöðu viðræðna við Evrópusambandið hefði margt verið vitlausara en að þessir aðilar væru í góðu sambandi þannig að Seðlabanki Evrópu, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þess vegna framkvæmdastjórnin væru upplýst um og þekktu til þeirra aðgerða sem Íslendingar hefðu gripið til varðandi afnám gjaldeyrishafta. Þær kynnu þá að hafa verið betur valdaðar en ella.

Nú er spurningin: Hvað er að gerast eða er eitthvað að gerast í þessum málum? Svo vill til að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, hefur jafnframt tekið sæti í sérstakri samráðsnefnd þingflokka um þetta mál, eða það á að heita svo að það sé enn við lýði. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvaða upplýsingar hefur hann m.a. um þennan þátt málsins, samskiptin við samstarfsaðilana þarna eða stöðu málsins í heild? Svo mikið er víst að ekki bólar á þeirri nýju afnámsáætlun sem hæstv. forsætisráðherra boðaði glaðbeittur í júní að mundi birtast síðastliðinn september. Að vísu kann september að vera teygjanlegt hugtak þar á bænum (Forseti hringir.) en varla svo teygjanlegt að hann standi enn.