143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Það vill svo til að í gær var frétt í Morgunblaðinu sem fjallaði um að ESB hefði sagt sig frá afnámi hafta. Það er akkúrat sú grein sem fyrirspyrjandi vekur athygli á. Þar er haft eftir Tómasi Brynjólfssyni, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, að stækkunarstofa Evrópusambandsins hefði haft frumkvæði að myndun hópsins og að hún hefði síðan ákveðið að taka ekki frekar þátt í því starfi og taldi því sjálfhætt í ljósi breyttrar stöðu umsóknarinnar. Starfið snerist um ráðgjöf og hugmyndavinnu að mati Tómasar. Þetta voru ráðleggingar frekar en eitthvað annað og það var ekki í boði af hálfu Evrópusambandsins að beita sér með einhverjum hætti svo að aflétta mætti höftum. Aðkoma ESB að málinu hafði því ekki úrslitaþýðingu að mati þessa starfsmanns. Ísland þarf að leysa fjármagnshöft sín sjálft áður en hægt er að ganga í Evrópusambandið. Þetta staðfesti fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, í umræðu á þingi 20. desember 2012 þar sem hún lýsti því að aðkoma Evrópusambandsins fælist í ráðgjöf og það væri forsenda að inngöngu að fjármagnshöft yrðu fyrst afnumin og það væri verkefni Íslands. Það er sem sagt ljóst að aðkoma að þessu starfi var ekki lykillinn að því að leysa Ísland úr höftum og ekki aðildin heldur.

Hvað varðar framvindu við afnám haftanna og vinnu stjórnvalda þá vil ég nefna í því samhengi að þingflokkum bauðst að tilnefna sína fulltrúa í samráðshóp um afnám hafta. Samráðshópurinn fundaði í fyrsta sinn 1. nóvember sl. Á þann fund mættu aðeins fulltrúar Pírata frá minni hlutanum auk fulltrúa meiri hlutans, þar sátum ég og Vilhjálmur Bjarnason. Á næsta fundi var einnig fremur slök mæting. Píratarnir mættu og þá helst fulltrúar úr Samfylkingu. Nú hefur dregist að halda næsta fund vegna þess að það hefur ekki tekist að finna fundartíma sem hentar meðal annars fulltrúa Vinstri grænna. Á þessum vettvangi, sem er mjög mikilvægur og ég vil hvetja minni hlutann til að nýta sér, (Forseti hringir.) er fjallað um þessi mál og framvinduna. Ég hvet menn sem sagt til að mæta á fundina. (Forseti hringir.)