143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gera samgöngur að umtalsefni hér eins og fleiri hv. þingmenn. Í síðustu viku fór fram sérstök umræða um almenningssamgöngur. Á morgun gengst innanríkisráðuneytið fyrir morgunverðarfundi þar sem kynntar verða niðurstöður félagsfræðilegrar greiningar á innanlandsfluginu og fyrir rúmri viku var haldinn á Egilsstöðum fundur þar sem rætt var um innanlandsflug.

Á fundinum á Egilsstöðum kom skýrt fram að kostnaður við innanlandsflug er íþyngjandi fyrir íbúa og atvinnulíf á Austurlandi, hvort sem fólk þarf að ferðast vegna starfa sinna, til að rækta samband við fjölskyldu, taka þátt í félags- og menningarstarfi á landsvísu eða nýta opinbera þjónustu eins og sérhæfða læknisaðstoð. Þar kom meðal annars fram að kostnaður heilbrigðisstofnana Austurlands við flug hefur hækkað verulega á síðustu tveimur árum, eða um 38,8%, og kostnaður við að flytja starfsfólk og sérfræðinga var á síðasta ári tæpar 11 milljónir þrátt fyrir að stofnunin njóti hæsta afsláttar. Einnig kom fram að kostnaður aðildarfélaga og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands við flugferðir hefði á síðasta ári numið tæplega 43 milljónum. Ég læt þessi dæmi duga núna.

Í stuttu máli varð niðurstaða fundarins sú að flugið megi ekki vera lúxus heldur kostur í almenningssamgöngum sem allir eiga að geta nýtt sér. Svo vitnað sé til orða Janne Sigurðsson, forstjóra Fjarðaáls, með leyfi forseta:

„Að fljúga á ekki að vera lúxus þegar maður býr í stóru landi með fáa íbúa þar sem þjónustan er ekki sú sama á milli svæða.“

Til að allir geti nýtt flugið þarf eitthvað að breytast, bæði hjá opinberum aðilum og flugfélaginu sem eitt býður upp á ferðir milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Það sama á að sjálfsögðu við á öðrum flugleiðum innan lands. Flugið er nauðsynlegur samgöngukostur fyrir marga íbúa landsins og verður að vera hluti af almenningssamgöngum innan lands. Því miður hefur það lengst af verið með almenningssamgöngur eins og óhreinu börnin hennar Evu, það vill helst enginn vita af þeim, skipuleggja þær eða bera fjárhagslega ábyrgð. Það verður að breytast.