143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[15:51]
Horfa

Fjóla Hrund Björnsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú í gær tilkynnti lögreglan í Reykjavík að upp hafi komið 50 fíkniefnamál síðustu daga, 50 fíkniefnamál hér á Íslandi. Við verðum að sporna gegn því að þetta endurtaki sig.

Á síðasta ári komu upp 2.189 fíkniefnabrot og þar af voru 1.725 fyrir vörslu fíkniefna sem lögreglan hafði þá afskipti af.

Þetta eru gríðarlega háar tölur. Við verðum að minnka fjölda fíkniefnamála sem upp koma hér á landi.

Einstaklingur sem lögregla tekur með ákveðið magn af fíkniefnum í fórum sínum fær það fært í sakaskrá sína og er þá á sakaskrá í þrjú ár. Einstaklingur sem tekinn er með fíkniefni í sinni vörslu fær sekt. Þessi tvö atriði ættu að nægja til að sporna gegn aukinni fíkniefnaneyslu og vera ákveðin forvörn.

Fíkniefni hafa skaðleg áhrif á einstaklinginn, á fjölskylduna og geta haft áhrif á samfélagið og aðra einstaklinga í samfélaginu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði, með leyfi hæstv. forseta, að hann væri hallur undir þá skoðun að reyna að afglæpavæða neysluna í þessum málum. Afglæpavæðing fíkniefna er heldur stórt skref fyrir okkur og tel ég að það séu aðgerðir sem við eigum alls ekki að ráðast í. Það eru til aðrar leiðir til að sporna gegn fíkniefnabrotum. Það er hægt að fara aðeins mannúðlegri leið í að aðstoða einstaklinga án þess að afglæpavæða fíkniefni. Þetta eru skaðleg efni sem við viljum sporna gegn að fólk ánetjist. Það eru til meðferðarúrræði hér á landi fyrir fíkniefnaneytendur sem auðvelt er fyrir neytendur og aðstandendur að hafa aðgang að og leita réttra úrræða.

Það er ljóst að það þarf að efla forvarnir í samfélaginu og stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu hvað varðar fíkniefni og alvarleika þeirra. Við skulum þó hafa hugfast að það er ástæða fyrir því að fíkniefni eru ólögleg.