143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[16:00]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir að hefja þessa mjög svo þörfu umræðu. Einnig vil ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá opnu nálgun sem hann sýnir þessu stóra og erfiða viðfangsefni.

Umræðan um fíkniefni og það sem þeim tengist einkennist oft af upphrópunum og alhæfingum. Því er mikilvægt að umræða sem þessi fari fram á málefnalegan hátt. Því upplýstara sem fólk verður um málaflokkinn því heilbrigðari verður umræðan.

Verkefni okkar er að draga úr notkun fíkniefna, koma í veg fyrir að fólk leiðist út í fíkniefnanotkun og hjálpa þeim sem eru orðnir háðir fíkniefnum að hætta notkun þeirra. Kannanir sýna að árangur hefur náðst í að draga úr áfengis- og tóbaksnotkun unglinga um leið og fíkniefnaneysla hefur stóraukist. Ég held að það sé óumflýjanlegt að viðurkenna að sú refsistefna sem við rekum hér á landi í fíkniefnum virkar ekki og hefur aldrei virkað. Því er nauðsynlegt að endurskoða þá stefnu og líta til fordæma annarra þjóða og sjá hvort við getum lært eitthvað af þeim.

Ég er þeirrar skoðunar að refsingar geti í sumum tilfellum hindrað fólk í að losna aftur úr þeim óheillaheimi sem fylgir fíkniefnum. Það getur hjálpað mörgum að vera án fíkniefna að fá vinnu eða takast á við einhver ný verkefni og breyta til í lífi sínu. Það eru hins vegar minni líkur á að slíkt gerist ef viðkomandi er orðinn stimplaður glæpamaður fyrir lífstíð fyrir óheillaspor sem viðkomandi gerðist sekur um.

Svo eru aðrir sem eru verr haldnir af fíkninni og þarf heilbrigðiskerfið að hafa svigrúm til að taka við slíkum einstaklingum. Það er ekki síður mikilvægt fyrir samfélagið í heild en einstaklinginn að draga úr þeim skaða sem fíkniefnaheimurinn veldur hverjum og einum.

Fari svo að dregið verði úr refsingum verða áfram að gilda skýrar reglur og samfélagið mun áfram senda þau skilaboð að fikniefni séu ekki vel séð. Við verðum að þora að ræða nýjar leiðir, endurskoða í hvað kröftum lögreglu og fangelsismálayfirvalda sé best varið en gleyma aldrei mikilvægi forvarna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)