143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

stefnumótun í vímuefnamálum.

[16:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka málshefjanda fyrir að þetta mál sé komið á dagskrá. Það er víst að mikilvægt er að ræða fíkniefnaneyslu á Íslandi á breiðum grunni. Mér finnst þó gæta dálítils misskilnings í máli sumra hv. þingmanna vegna þess að enginn maður er dæmdur í fangelsi fyrir að bera á sér neysluskammt. Sektarúrræði er það sem gildir. Ég get til dæmis upplýst að 100 g skammtur af hassi sem einhver ber á sér og lítur út eins og söluskammtur dugar ekki heldur til fangelsisvistar. Ef við ætlum að ná árangri í fíkniefnamálum hljótum við að ráðast að rótinni, við hljótum að ráðast að framboðinu því að það er aukið framboð sem eyðileggur líf ungmenna hér. Aukið framboð stoppum við helst með því að efla löggæslu á landamærum, efla tollgæslu. Við getum svo farið út í vægari úrræði hvað varðar refsingar fyrir neyslu og vörslu. Mér dettur í hug til dæmis að þegar menn eru komnir á þann stað í neyslu að samkvæmt núgildandi lögum ætti að dæma þá til refsivistar, hvers vegna breytum við ekki lögum á þann hátt að þeir verði dæmdir til afvötnunar?

Við leysum þessi mál ekki endilega með því að hlaupa til í fljótræði og breyta um kúrs. Við þurfum að koma í veg fyrir að fíkniefni séu flutt inn og seld. Við þurfum að stoppa dólgana á skólalóðunum sem (Forseti hringir.) hneppa grunnskólanemendur í þessa fjötra. Þar skulum við taka til hendinni.