143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki skilið mig þannig að hér hafi ekkert gerst, en það er hins vegar rétt hjá mér og hefur komið fram að Evrópusambandið átti að vera lausn allra stóru vandamálanna; gjaldmiðlalausn, leysa höftin, leysa atvinnuleysið, sem þó er miklu meira í Evrópusambandinu en hjá okkur. En það er rétt, menn gerðu það sem þeir reyndu til þess að koma efnahagslífinu af stað og koma fyrirtækjunum áfram. En ég held að það hefði mátt vera gert af miklu meiri krafti ef menn hefðu ekki einblínt um of á að aðild að Evrópusambandinu og myntbandalaginu og öðru slíku ætti að leysa allt. Við munum það líka að það var meira að segja gefið í skyn að það eitt að senda inn umsóknina mundi hafa jákvæð áhrif á stöðu efnahagsmála á Íslandi. Það varð ekki raunin.

Ég ætla að biðja hv. þingmann um að fyrirgefa mér ef hún skilur orð mín þannig að hér hafi ekkert verið gert. Það er ekki rétt hjá mér ef ég hef sagt það. En Evrópusambandið er ekki sú lausn sem í það minnsta annar af stjórnarflokkunum talaði um og talar enn um að sé bjargvættur alls fyrir Ísland, að það að ganga í Evrópusambandið lækki fyrir okkur allan kostnað, að það að ganga í Evrópusambandið geri það að verkum að Íslendingar geti horft fram á veginn varðandi náttúruauðlindir, sjávarútveg og slíkt. Það er ekki til staðar. Það kemur ágætlega fram í þessari skýrslu að það er sýnd veiði en ekki gefin.