143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. utanríkisráðherra olli mér nokkrum vonbrigðum. Hún var þannig að hún er ekki líkleg til þess að leggja einhvern grunn undir sammæli í þinginu um leiðina áfram í þessum málaflokki. Það var þó mögulegt fyrir ráðherrann að reyna að feta þá leið. Afstaða hans og ríkisstjórnarinnar einkennist enn sem fyrr af því viðhorfi sem forsætisráðherra lýsti svo ágætlega í dæmalausri ræðu sinni á viðskiptaþingi í liðinni viku þegar hann flutti dæmisöguna af manninum með tjakkinn. Hann verður fyrir því á ferð um afskekkta sveit að það springur á bílnum, hann er ekki með tjakk í bílnum og hann á engin ráð til að skipta um dekk. Hann gengur langa leið að næsta bæ til að fá lánaðan tjakk og hann ímyndar sér að enginn sé heima á bænum og hann muni ekki fá neinn tjakk. Svo hugsar hann: Ja, jafnvel þó einhver sé heima getur vel verið að húsráðandi vilji ekki lána mér tjakkinn. Svona miklar hann vandamálin fyrir sér þar til loksins hann stendur á tröppunum, knýr dyra, húsráðandi kemur til dyra og maðurinn segir: „Þú getur bara átt þinn andskotans tjakk sjálfur.“ Ég biðst afsökunar á orðfærinu, virðulegi forseti.

Þetta er afstaða ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Hún er stöðugt að finna sér leiðir til þess að forðast að fá svör við þeim efnislegu spurningum sem þjóðin þarf á að halda að fá svör við í þessu stóra máli. Hún er að finna leiðir til þess að ímynda sér að svörin verði svo svakaleg að ekki sé réttlætanlegt að spyrja spurninganna.

Ræða hæstv. ráðherra var einn samfelldur áfellisdómur yfir Evrópusambandinu og umsóknarferlinu. En það merkilega er að efni hennar á sér litla sem enga stoð í skýrslunni sem við ræðum hér. Skýrslan er miklu betri en ræða hæstv. ráðherra gefur tilefni til að ætla. Í skýrslunni er viðurkennt að dæmi eru um að ríki hafi fengið sérlausnir viðurkenndar í aðildarsamningum. Með öðrum orðum, goðsögnin mikla um að það sé ekki um neitt að semja er hrakin með afgerandi hætti í skýrslunni.

Hæstv. ráðherra til upplýsinga er sjálfsagt að benda á að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, skrifaði ágætan pistil á vefriti Pressunnar í gærkvöldi þar sem hann rakti tugi dæma um varanlegar sérlausnir einstakra ríkja í samningum við Evrópusambandið. Ég held að forustu Framsóknarflokksins væri það hollt í þessu máli sem öðrum að hlusta aðeins meira á þann ágæta fyrrverandi formann Framsóknarflokksins.

Það segir berum orðum í skýrslunni að það hafi verið óheppilegt að gert hafi verð hlé á aðildarviðræðum áður en mörkuð var samningsafstaða Íslands í sjávarútvegsmálum og þar af leiðandi áður en hægt væri að fá viðbrögð Evrópusambandsins við afstöðu Íslands. (Utanrrh: Hverjir gerðu það hlé?)Það merkilega er að með þessu er skýrt sagt að um eitthvað hafi verið að semja vegna þess að auðvitað hefði samningsafstaða sem Ísland hafði útbúið áhrif á hvað kæmi frá mótaðilanum.

Það er því ekkert ljóst um hina meintu óbilgirni Evrópusambandsins sem hæstv. utanríkisráðherra var svo tíðrætt um áðan í ræðu sinni. Það er ekkert ljóst um það að Evrópusambandið hafi aldrei verið tilbúið til samninga við okkur um sjávarútvegsmál. Fyrir vikið, vegna þess að gert var hlé á aðildarferlinu of snemma, er ómögulegt að meta til fulls líkur á að fullnægjandi samningar hefðu náðst. Þetta má ráða beint af skýrslunni algjörlega skýrt og greinilega. Það liggur því beinast við að losa samningaviðræðurnar úr því frosti sem þær eru í nú og fá svör við þeim spurningum sem þjóðin þarf á að halda að fá svarað til þess að vita nákvæmlega hvað er í boði.

Það er auðvitað ljóst að á annan kantinn höfum við hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina sem hefur tileinkað sér hugarfar mannsins með tjakkinn sem sér bara hindranir og er sannfærður um að hann fái enga úrlausn sinna mála í samningum, fulltrúa vonleysis og vanmáttar og vanmetakenndar, en ekki fulltrúa sjálfstæðrar kraftmikillar þjóðar sem er tilbúin að færa fram rök fyrir íslenskum þjóðarhagsmunum, sækja fram fyrir íslenska hagsmuni og fá fullnægjandi niðurstöðu fyrir íslenska hagsmuni, eða ekki, og leggja þá niðurstöðu í dóm þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Það er margt gott í þessari skýrslu, en það eru margir þættir til viðbótar sem ég bind vonir við að verði umfjöllunarefni í annarri skýrslu sem er í vinnslu í háskólanum á vegum Alþjóðamálastofnunar. Það eru fleiri hlutir sem þarf að kanna. Við þurfum frekari umfjöllun um efnahags- og peningamál og frjálsa fjármagnsflutninga og betri greiningu á þeirri stöðu sem við erum nú í í höftum og með hvaða hætti spurningin um aðild tengist afnámi hafta og hvernig við sjáum leiðina fram á við, hver ávinningurinn af sameiginlegum gjaldmiðli yrði fyrir íslenskt efnahagslíf. Við þurfum betri greiningu á sjávarútvegsþættinum og möguleikum á sérákvæðum um fjárfestingar í sjávarútvegi, hversu mikilvæg þau eru og hvernig væri hægt að útfæra þau. Við vitum að af hálfu Evrópusambandsins, meðal einstakra ríkja þar, var áhugi á að setja skilyrði um að gengið yrði frá samningum í makríldeilunni áður en sjávarútvegskaflinn yrði opnaður í samningaviðræðum milli Íslands og Evrópusambandsins. Nú hillir undir að svo verði ekki vegna þess að það mál er til lykta leitt, afgreitt á milli Evrópusambandsins og Íslands þótt Noregur þráist enn þá við eðlilegum samningum.

Við þurfum betri umfjöllun um landbúnað og dreifbýlisþróun ásamt matvælaöryggi og plöntu- og dýraheilbrigði. Það er of lítið um mikilvægi aðildar að Evrópusambandinu fyrir fjölgun starfa í landbúnaði og markaðssókn fyrir íslenskan landbúnað í þessari skýrslu. Og við þurfum betri greiningu á stöðu og framtíð EES-samningsins í samhengi við aðildarferlið en er að finna í þeirri skýrslu sem hér um ræðir. Við búum nefnilega ekki við kyrrstöðu. Við búum í heimi sem hreyfist og þroskast og við erum ekki í þeirri stöðu að geta valið um aðild að Evrópusambandinu eða vera fullkomlega óháð því. Við erum í dag háð því um margt. Við tökum upp gerðir þaðan án áhrifa. Sú staða fer sífellt versnandi.

Virðulegi forseti. Lengi vel lagði Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á hagsmunamat sem grundvöll ákvarðana í Evrópumálum. Ég var ekki alltaf sammála hagsmunamati Sjálfstæðisflokksins og hvernig sjálfstæðismenn mátu hagsmunina en ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði. Það er hið eina sanna sjónarmið sem við þurfum að hafa að leiðarljósi í umræðu um Evrópumál.

Ræða utanríkisráðherra nú og framganga ríkisstjórnarinnar í þessu máli ber ekki vitni um að hagsmunamat ráði gerðum ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra stærir sig af því að mæta á fund hjá atvinnulífinu og segja ekki það sem viðskiptalífið vill heyra. Hæstv. utanríkisráðherra hæðir og atyrðir hagsmunasamtök atvinnulífsins í gær, sameiginlega úttekt aðila vinnumarkaðarins á aðildarferlinu, og segir fyrir fram að hann muni ekki taka mark á þeirri niðurstöðu sem Alþjóðamálastofnun mun komast að vegna þess hverjir verkbeiðendurnir eru.

Ræða hæstv. utanríkisráðherra áðan var ekki ræða sem byggði á hagsmunamati Íslands heldur var hún ræða andstæðings Evrópusamvinnu og var samfelldur áfellisdómur yfir evrópskri efnahagssamvinnu og þar af leiðandi ræða til rökstuðnings fyrir úrsögn okkar úr hinu Evrópska efnahagssvæði. Það merkilega er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli láta teyma sig eins og hund í bandi þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar ganga fram með þessum hætti.

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur alltaf talað fyrir hagsmunamati. Hann hefur komist að ólíkri niðurstöðu á ólíkum tímum í því. Árið 2009 taldi hann eðlilegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu út af þessu hagsmunamati. Hann telur það ekki eðlilegt nú en hann hefur alltaf nálgast þetta mál, ekki á forsendu orðhengilsháttar eins og hæstv. utanríkisráðherra gerði áðan og ekki á forsendum óbilgirni eða óvildar í garð evrópskrar efnahagssamvinnu og Evrópusambandsins heldur á forsendum hagsmunamats. Það blasir því við sú spurning að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hann hefði sagt við atvinnulífið ef hann hefði átt þess kost að halda ræðu á viðskiptaþingi í síðustu viku. Hefði hann sagt atvinnulífinu það sem atvinnulífið vildi heyra? Hefði hann talað fyrir fjölbreyttu atvinnulífi í landinu? Eða hefði hann skipað sér í sveit hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra í varðstöðu um fámennar forréttindaklíkur í landinu, um fámennar ofurtollagreinar, á kostnað almenns atvinnulífs í landinu? Hvar hefði hæstv. fjármálaráðherra fundið sér stað í þessari umræðu? Við þurfum að heyra það hér frá hæstv. fjármálaráðherra á eftir og við þurfum að heyra það frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í umræðunni hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé algerlega genginn í björg hjá Framsóknarflokknum eða hvort hann hafi enn þá tilburði í því efni að leggja sjálfstætt hagsmunamat á hagsmuni Íslands og fylgja hagsmunum atvinnulífsins eftir.

Virðulegi forseti. Hagsmunamatið þarf að fara fram. Við byggjum ekki upp á Íslandi til framtíðar öflugar útflutnings- og þekkingargreinar nema með traustum alþjóðasamskiptum, stöðugum gjaldmiðli og lágum vöxtum. Við verðum að losna úr höftum. Þetta eru lykilkröfur sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum dregist aftur úr öðrum nágrannaþjóðum í lífskjörum á undanförnum árum og við verðum að snúa þeirri þróun við.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan að Evrópusambandið skorti metnaðarfulla stækkunarsýn. Ég vil segja á móti að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra skortir metnaðarfulla stækkunarsýn fyrir Íslands hönd. Þessa ríkisstjórn skortir sýn um það hvernig Ísland ætlar að vinna hagsmunum sínum fylgi, hvernig Ísland ætlar að hreyfa við þeirri stöðu sem uppi er.

Öll ræða hæstv. utanríkisráðherra var varnarræða manns sem óttast umheiminn, sem er ekki tilbúinn að reyna að hafa áhrif á hann, sem er ekki tilbúinn að reyna að breyta staðreyndum heldur reynir að rýna í einhverja kristalskúlu til að finna röksemdir fyrir kyrrstöðu og aðgerðaleysi. Ísland þarf þvert á móti nú á að halda sóknarstefnu. Við þurfum að skilgreina markmið okkar. Við þurfum að skilgreina þarfir íslenskrar þjóðar og sækja fram fyrir þær þarfir. Það er metnaðarfull stefna fyrir Ísland. Því miður er alveg ljóst að þess er ekki að vænta að þessi ríkisstjórn bjóði upp á slíka stefnu.

Hæstv. utanríkisráðherra klifaði aftur og aftur á að ekkert væri í boði og engra lausna að vænta. Samt vitum við að ráðamenn Evrópusambandsins hafa ítrekað sagt að þeir telji sig geta mætt íslenskum þjóðarhagsmunum. Þeir vita nákvæmlega hvaða áherslur við höfum lagt í sjávarútvegsmálum, í gjaldmiðilsmálum, í landbúnaðarmálum og þeir horfa í augun á okkur á fundum og segja: „Ég veit að ég hef tækið.“ Þetta gerði stækkunarstjórinn í haust á fundi sem ég átti með honum. Hæstv. utanríkisráðherra getur hlegið yfir því að menn upplifi návígi með þeim hætti (Utanrrh: …hitt hann.)og hæstv. ráðherra getur væntanlega borið vitni um það (Forseti hringir.) að stækkunarstjórinn hefur líklega sagt það sama við hann enda hefur þetta komið fram í opinberum yfirlýsingum framkvæmdastjórnarinnar: Við höfum úrræðin til þess að mæta þörfum Íslands. Á þau orð verður að láta reyna og þjóðin á rétt á því.

Virðulegi forseti. Ég legg til að skýrslunni verði vísað til utanríkismálanefndar til meðferðar og henni verði falið að fjalla um hana og henni verði líka falið að fjalla um þá skýrslu sem aðilar vinnumarkaðarins eru nú með í vinnslu og að hún vinni nú á næstu vikum og mánuðum alvöruúttekt á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, leggi til grundvallar þessar tvær háskólaskýrslur og við eigum hér áfram í vor frekari umræður um þetta mál.