143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa mig algjörlega ósammála túlkun hv. þingmanns á Evrópusambandinu. Eins og kemur fram í skýrslunni setur sambandið ávallt fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki gangi að öllu regluverki þess óbreyttu. Það er einfaldlega þannig. Þetta er staðreynd. Ástæðan er einfaldlega sú að hugsunin er öll á þann veg að aðildarríkin eigi öll að sitja við sama borð, leikreglurnar eigi að vera þær sömu fyrir þau öll.

Við erum með dæmi. Norðmenn fóru fram með kröfur í sjávarútvegsmálum á sínum tíma. Þeir fóru fram með svipaðar kröfur og ég geri ráð fyrir að við höfum gert eða ætluðum okkur að gera. Þeir byggðu kröfur sínar á því að sjávarútvegur væri mikilvæg útflutningsvara og hefði afgerandi þýðingu fyrir búsetu og atvinnustarfsemi á strandsvæðum Noregs. Þetta fékk ekki hljómgrunn hjá Evrópusambandinu. Niðurstaðan varð sú að Norðmenn fengu í engum greinum varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins. Þetta kemur fram í skýrslunni á bls. 63, þannig að við erum með dæmi á borðinu.

Hvað annað var í boði? (Forseti hringir.) Það var ekkert annað í boði en Evrópusambandið. Það liggur nú (Forseti hringir.) ljóst fyrir. Ég held að menn eigi bara að fara (Forseti hringir.) að horfast í augu við það.