143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa skýrslu. Mér er ljúft, kannski ekki ljúft en alla vega skylt, að fjalla aðeins um aðdraganda aðildarumsóknarinnar í ljósi þess sem sagt var áðan um hreyfingu mína, Vinstri hreyfinguna — grænt framboð, og afstöðu hennar í því máli. Ég hef raunar margoft reynt að skýra þá afstöðu, bæði í þessum stól og annars staðar. Ég veit að það er mörgum hv. þingmönnum stjórnarflokkanna mjög erfitt að skilja afstöðuna sem hefur falist í því að þrátt fyrir að við sem hreyfing séum andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu teljum við málið af þeirri stærðargráðu í íslenskum samtíma og stjórnmálum, enda hefur það verið deiluefni hér mjög lengi og í raun og veru allt frá því að Norðurlöndin fóru að ganga í sambandið, að eðlilegt sé að þjóðin taki afstöðu til þess með einhverjum hætti.

Mér finnst þetta ekki flókin afstaða. Hún snýst um að sum mál eru það stór að mikilvægt er að taka þau út úr hefðbundnum farvegi flokkapólitíkur. Ég veit að það þykir mörgum mjög skrýtið. Ég hef átt orðastað við hv. þingmenn, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, um þetta mál, hv. þm. Pétur H. Blöndal kinkar kolli. Svona liggur þetta, svona er þetta. Það tel ég ekki vera tvískinnung, ég tel þetta mjög skýra afstöðu gagnvart málinu og líka gagnvart lýðræðinu.

Ef við ætlum að fara að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu hlýt ég auðvitað að inna hv. þingmenn stjórnarflokkanna eftir loforðum þeirra, ekki síst loforðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál á kjörtímabilinu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er í salnum og ég man eftir því að hann staðfesti að stefnt yrði að þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins, jafnvel samhliða sveitarstjórnarkosningum. Mér finnst því eðlilegt að inna hv. þingmenn stjórnarflokkana eftir loforðum þeirra. Þótt hæstv. forsætisráðherra hafi verið nokkuð loðnari í þeim svörum, eins og hann er stundum, finnst mér mikilvægt að við fáum á hreint hvort búið sé að blása þá þjóðaratkvæðagreiðslu af. Ég reikna með því að því verði svarað í ræðu á eftir eða andsvari hvort búið sé að blása hana af svo að við vitum nákvæmlega hvert eigi að stefna. Það er mikilvægt fyrir almenning að vita. Að halda því fram að afstaða VG sé flókin — mér finnst hún ekki sérstaklega flókin en ég get útskýrt hana eins oft hér og menn vilja.

Það er margt kunnuglegt í þessari skýrslu. Það er skemmtilegt að hér er rætt um skýrsluna eins og fyrstu skýrslu sinnar tegundar. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sátum saman í merkri nefnd undir forustu Björns Bjarnasonar á sínum tíma sem gerði ágæta úttekt á Evrópusambandinu og ég verð að segja að þegar ég renndi yfir þessa skýrslu var þar margt kunnuglegt úr fyrri umræðu. Þó hefur ýmislegt breyst, eins og til að mynda tilkoma Lissabonsáttmálans sem hefur verið nefndur hér. Það er margt ágætt í skýrslunni. Ég hefði þó viljað sjá miklu dýpri umfjöllun af því að búið er að boða skýrsluna hér sem grundvallarplagg í umræðunni um Evrópusambandið.

Ég hlýt að staldra við margt. Ég lít svo á að þessi umræða sé um skýrsluna og ég ætla að ræða hana og ekki að vera á kafi í fortíðinni eins og sumir aðrir. Mér finnst til dæmis merkilegt hvernig samanburði er háttað í skýrslunni. Hér er yfirleitt verið að bera saman Evrópusambandið, og þá er ég að vitna til kaflans um efnahagsmálin, Bandaríkin og Japan tekin sérstaklega sem dæmi. Það er mjög áhugavert að lesa út úr skýrslunni ákveðna afstöðu sem þar birtist, eins og til að mynda þegar rætt er um vinnumarkað í Evrópuríkjum sem þykir ósveigjanlegur samkvæmt skýrsluhöfundum og nefnt er að það sé náttúrlega út af sterkri stöðu stéttarfélaga. Það er mjög auðvelt að greina ákveðna pólitíska sýn sem birtist í skýrslunni, t.d. þegar nánast er rætt um hinn ósveigjanlega vinnumarkað sem galla því að staða stéttarfélaga sé sterk. Ég hef því verið að lesa skýrsluna nákvæmlega með því hugarfari að rýna aðeins hvað býr þar að baki og hvaða afstöðu má kynna.

Ég verð líka að segja að ég hefði viljað sjá dýpri umfjöllun af því að verið er að ræða um efnahagsmál og gjaldmiðilsmál. Á bls. 92 segir, með leyfi forseta:

„Fram hafa komið getgátur um að vandinn á evrusvæðinu muni leiða til þess að það brotni upp á þann veg að sum lönd neyðist til að taka upp eigin gjaldmiðla meðan önnur haldi áfram með evruna sem sameiginlegan gjaldmiðil. Kostnaður við slíka uppstokkun yrði trúlega mikill og óvíst hvaða áhrif slíkar hræringar hefðu á efnahagslíf viðkomandi landa.“

Að sjálfsögðu hefði ég viljað sjá miklu dýpri umfjöllun. Er þetta raunverulega að fara að gerast? Ég hefði líka viljað sjá heimildaskrá í skýrslunni. Hér eru vissulega tilvitnanir en það er ekki heimildaskrá í lokin þannig að maður geti áttað sig á því hvort verið sé að vitna í nýjustu rit um málin. Ég efa ekki að svo sé en ég hefði viljað hafa heimildaskrá þannig að við þingmenn hefðum getað kynnt okkur ítarlega það sem liggur á bak við skýrsluna. Þetta er aðferðafræðileg gagnrýni en það sem ég sakna sérstaklega, og ég kom að áðan, er að ég fann ekki það sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi um samninginn við Hagfræðistofnun á heimasíðunni. Það getur vel verið að það sé þar, ég fann það ekki í fréttunum en ég reikna með að mér verði vísað á það. Ég sakna þess að sjá ekki ítarlegri greiningu á hinni pólitísku umræðu sem hefur átt sér stað í Evrópusambandinu, ekki síst eftir þá kreppu sem hefur gengið yfir sambandið og tengist einmitt gjaldmiðlinum sem þarna er nefndur. Ég tel að það sé kannski eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að ræða um Evrópusambandið, hvernig Evrópusambandið hefur brugðist við kreppunni, hvaða hugmyndafræði Evrópusambandið beitir í kreppunni og hvort það sé ekki í rauninni sama hugmyndafræðin og að einhverju leyti skapar kreppuna.

Þar sem rætt er um gjaldmiðilinn eru vangaveltur skýrsluhöfunda um hvort hugsanlega verði aukin miðstýring í ríkisfjármálum, sem eru mjög gildar vangaveltur og ég hefði viljað fá nánari umfjöllun um, og hvort hugsanlega verði farið í einhverjar handaflsaðgerðir til þess að breyta efnahagslegri stöðu milli ólíkra svæða, því að það er talsvert misræmi milli svæða. Þarna tel ég að hefði mátt kafa dýpra. Það sem hefur verið bent á þegar við skoðum þá gagnrýni sem Evrópusambandið hefur orðið fyrir og viðbrögð þess frá vinstri hliðinni er að uppbygging evrópska seðlabankans og evrusamstarfsins á sínum tíma ber auðvitað merki fæðingartíma síns, snemma á tíunda áratugnum, þ.e. þetta er uppbygging sem er undir áhrifum þess að vöxturinn eigi ekki endilega að byggjast á eftirspurninni heldur á kerfislægum breytingum framboðsmegin. Þetta er kerfi sem byggist á samkeppnissjónarmiðum um gæði og vinnuafl og er byggt upp á sama tíma og algengasta veggjakrotið í City í Lundúnum var „Rules rule“, þ.e. að við setjum bara eitthvert regluverk og látum svo markaðinn um að leysa vandamálin.

Síðan er hin algenga söguskoðun að ríkisstjórnir vissra landa, Írlands, Portúgals, Spánar hafi brotið reglurnar og þess vegna hafi allt farið fjandans til. Við skulum ekki gleyma því að málið er ekki svo einfalt. Þetta byggir auðvitað á ákveðinni hugmyndafræði, hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem hefur haft mjög mikil áhrif á uppbyggingu evrusamstarfsins. Þá kinkar hv. þm. Pétur H. Blöndal glaður kolli. Það er kannski stóra gagnrýnisatriðið þegar við horfum núna á viðbrögð Evrópusambandsins við þeirri kreppu sem síðan ríður yfir. Hver eru viðbrögðin? Jú, þau fara í mjög harða niðurskurðarpólitík, svo harða að jafnvel eru gerðar athugasemdir við ríkisstjórnir einstakra landa sem vilja fara félagslegri leiðir og fara blandaðri leiðir, eins og síðasta ríkisstjórn gerði hér á Íslandi. Ég hef raunar gagnrýnt hv. þingmenn stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd fyrir að aðhyllast um of hugmyndafræði Evrópusambandsins þegar kemur að niðurskurðarstefnunni. Við sjáum skýrt afleiðingar þeirrar niðurskurðarstefnu ef við skoðum til að mynda þær skýrslur sem hafa verið gerðar um aukin vandamál í Evrópu. Við sjáum að ójöfnuður í Evrópu, bara á síðustu fimm árum, hefur aukist, hann hefur vaxið. Það er ekki aðeins að fleiri séu að verða fátækari heldur fara fleiri upp í hátekjuþrepið, millistéttin er að dragast saman og fleiri úr þeim hópi að verða fátækari.

Það er því umhugsunarefni hvert er að stefna í þeim málum í Evrópu. Af hverju er ekki fjallað um það í skýrslu um Evrópusambandið ef við ætlum að fá einhverja almennilega úttekt á stöðu mála þar? Af hverju er ekki fjallað í meira mæli um stöðu til að mynda ungs fólks í Evrópu? Vissulega er sagt: Jú það er mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks. Förum yfir það hvernig þetta er. Við horfum upp á að ungt fólk flytur aftur inn á foreldra sína þótt það sé komið með börn og annað slíkt. Það er ástand. Við erum með 26 milljónir atvinnulausra, 11 milljónir sem hafa verið án atvinnu lengur en eitt ár og hugsanlega aukna fólksflutninga frá austri til vesturs. Þannig er það alla vega samkvæmt nýjustu skýrslum sem ég hef verið að kynna mér. Ég er ekki að vitna í þessa skýrslu í því.

Það sem mér finnst vanta í þetta er hin félagslega og pólitíska vídd. Þetta hefur að sjálfsögðu verið uppi á borðum í Evrópusambandinu. Sjálfur Jürgen Habermas, einn helsti talsmaður Evrópusamrunans, hefur gefið út bók sem snýst um viðbrögðin við þessu og hvernig eigi að fara í það. Hans svar við því er að Evrópusambandið hafi vanrækt vissa hluti. Svo eru aðrir úr miklu róttækari örmum gagnrýninnar, ég nefni gríska hagfræðinginn Costas Lapavitsas sem kemur frá Grikklandi þar sem hefur verið mjög dýnamísk umræða um Evrópusambandið. Hann segir að vandinn sé innbyggður í kerfið, að hann sé innbyggður í kerfi nýfrjálshyggjunnar. Er það ekki þetta sem við ættum að vera að ræða hérna þegar við ræðum hvort við viljum verða hluti af Evrópusambandinu eða ekki? Er ekki hluti af því að ræða hvaða aðferðum hefur verið beitt, hvaða tæki Evrópusambandið notar og hvaða afleiðingar það hefur félagslega?

Eins og ég segi hefði ég viljað sjá miklu dýpri greiningu á því og meiri og dýpri umfjöllun í ljósi þess að skýrslan á að vera umræðugrundvöllur. Ég held, svo að ég segi það bara hér, að við getum staðið hér, ég þekki alveg þessa umræðu, og rætt um undanþágur og vitnað í greinar. Þetta er allt mjög kunnugleg umræða. Ég held raunar að það sé svo að þótt samningar aðildarríkjanna séu ekki allir eins hafi verið tilhneiging í átt að aukinni samræmingu. En það sem ég taldi að þessi umræða ætti að snúast um var stóra myndin. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur beðið um andsvar og ég veit að hann hefur iðulega staðið hér og sagt: Hvar verður Evrópusambandið eftir 50 ár og eftir 100 ár? Erfitt hefur verið að svara þeim spurningum hv. þingmanns en ég vonaði að þessi skýrsla mundi færa okkur aðeins nær svörunum í þeirri umræðu. Mér finnst þessi efnahagslegi samanburður, svo langt sem hann nær, bæði bera vitni um mjög ákveðna sýn, eins og ég fór yfir áðan, og skilja eftir mjög stóra þætti. Við getum ekki einungis horft á einhvern efnahagslegan samanburð. Þá missum við algjörlega sjónar á hinum þáttunum sem skipta máli, þeim samfélagslega, þeim umhverfislega. Ég kalla eftir því hér í þessu máli. Mér finnst að við þurfum að ræða málið út frá miklu víðara sjónarhorni og fá mun ítarlegri, pólitískari greiningu þar sem eru skoðuð öll sjónarmið því að við höfum stundum fest okkur hér, þegar við ræðum um Evrópusambandið, þá ræðum við eingöngu hvernig samningur fyrir Ísland varðandi sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál mun líta út. Þetta snýst ekki bara um það.

Evrópusambandið er mjög merkilegt pólitískt fyrirbæri. Það hefur kosti og galla og er mjög margþætt og það er stóra myndin sem við eigum að ræða, hvort við séum viljug til að fara í samstarf sem snýst ekki aðeins um hagsmuni okkar heldur hvort við séum viljug til að taka þátt í samstarfi á þeim reglum sem sambandið byggir á. Ég hef aðeins farið yfir brotabrot af því. Ég er mjög gagnrýnin á þau lögmál sem ráða þegar efnahagsstefna Evrópusambandsins hefur verið mótuð, ekki síst frá því að lagt var af stað í þessa vegferð, í sameiginlegt myntsamstarf sem ég tel að hafi litast um of af sjónarmiðum nýfrjálshyggjunnar. Ég ætla heldur ekkert að horfa fram hjá því að í gegnum Evrópusambandið hafa orðið gríðarlega mikilvægar umbætur á sviði umhverfismála og áður fyrr á sviði félagsmála. Mér finnst að við eigum að vera að ræða þá stóru mynd þegar við tölum um hvort við viljum taka þátt í því samstarfi eða ekki, við verðum að hafa það á hreinu. Við verðum líka að átta okkur á því að þetta er ekki eitthvert statískt fyrirbæri.

Þetta er kannski það góða við að gera svona úttektir. Við ættum að gera þær mjög reglulega af því að Evrópusambandið er ekki hið sama og það var 2008 og það er ekki hið sama og það var fyrir 20 árum. Það er auðvitað eðli samstarfs ríkja, það tekur breytingum og það þróast.

Þetta er það sem ég vildi segja á þessum örstutta tíma. Að sjálfsögðu hef ég ekki náð að lesa alla viðaukana við skýrsluna, ég hef náð að fara í gegnum skýrsluna á hraðferð. Ég vil að lokum segja að það væri óskandi að við hefðum fengið meiri tíma til að kynna okkur skýrsluna. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er mér sammála um það. Það væri líka óskandi að við tækjum þessa umræðu, að mínu viti, út frá breiðari sjónarhóli en þeim sem ég nefndi áðan.