143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir að fara vítt og breitt yfir Evrópusambandsmálin í tilefni af þessari skýrslu og umræðu um hana. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvernig hún sjái fyrir sér að því sé fylgt eftir pólitískt sem hún hefur vikið hér að, sem er það að flokkur eins og sá sem hv. þingmaður fer fyrir styðji viðræður en sé á móti aðild. Þá er einkum spurt að því hvernig eigi að leiða slíkar viðræður til lykta pólitískt.

Eitt er að eiga í samningaviðræðum og leysa úr öllum lagalegum álitamálum, sem er lagalegt úrlausnarefni og samningatæknilegt, en aðild að Evrópusambandinu og viðræðurnar sem slíkar eru hápólitískt mál. Það skiptir því miklu hvaða pólitísku skilaboð fylgja því að ljúka samningagerð, (Forseti hringir.) þar með talið hvort viðkomandi flokkur, forustumenn, ætla að styðja samninginn. (Forseti hringir.) Mundi hv. þingmaður til dæmis treysta sér til að leiða viðræður til lykta en lýsa því síðan yfir að hún styðji ekki samninginn?