143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér næstur í ræðu og get farið yfir sýn mína á framhald málsins og þjóðaratkvæðagreiðslur. En mér finnst það ekki skýrt hjá hv. þingmanni hvernig það geti farið saman að leiða viðræður til lykta og komast yfir þær pólitísku hindranir sem fylgja því að ljúka samningaviðræðum ef hugur fylgir ekki máli, þ.e. vilji til að styðja niðurstöðuna.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði að hún væri fylgjandi því að þjóðin kæmi að málinu með einhverjum hætti, og ég hef verið þeirrar skoðunar líka. Ég tel mikilvægt að stórar ákvarðanir séu teknar í sem mestu samráði við þjóðina og að í sumum tilvikum eigi undantekningarlaust að bera mál undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég vil þess vegna að við höldum áfram vinnu við breytingar á stjórnarskránni í því efni.

En við getum ekki komist fram hjá ákveðnum hindrunum sem fylgja því óneitanlega að ljúka viðræðum í þessu máli og framhaldi málsins (Forseti hringir.) pólitískt séð. Ég tel að það sé að koma betur og betur (Forseti hringir.) í ljós að ákveðinn ómöguleiki sé hér til staðar sem ég átta mig ekki á (Forseti hringir.) hvernig hv. þingmaður telur að hægt sé að komast yfir.