143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lissabonsáttmálinn breytti auðvitað sambandinu og það er staðreynd sem þingmenn hefðu átt að ræða í hörgul áður en sótt var um að mínu mati. Jafnframt er ég sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal og er enn þá á þeirri skoðun að það hefði bjargað miklu fyrir þáverandi ríkisstjórn sem tók þessa ákvörðun í þessu ljósi, ríkisstjórnarflokkarnir verandi hvor á sinni skoðun í rauninni í málinu, hvor með sína stefnu, að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu á þeim tíma, fyrst Samfylkingin gerði það að skilyrði fyrir stjórnarsamstarfinu.

Ég tel því mikilvægt fyrir komandi kynslóðir alþingismanna, skulum við segja, að þær fái á hreint hvernig þeir sem stóðu í eldlínunni á þessum tíma og tóku ákvarðanir líta á sín verk, söguna. Hefði ekki verið betri leið til að kortleggja framtíðina og leiðina að endamarkinu betur en gert var að spyrja þjóðina fyrir fram á þeim tíma?