143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geng enn út frá því að hv. þingmaður sé mótfallinn Evrópusambandsaðild en vilji engu að síður klára samningana. Það er nefnilega rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram að þetta snúist einungis um áætlanir vegna þess að opnunarskilyrðin að samningaköflunum snúast um áætlanir. Lokunarskilyrði snúast um að við séum búin að uppfylla áætlanirnar.

Það kom fram m.a. í aðildarviðræðum við Króatíu. Tökum eitt dæmi: Í aðildarviðræðum við Ísland var sett opnunarskilyrði í landbúnaðarmálum, byggðaþróun og dreifbýli, sem fól í sér að gera slíka áætlun, alveg eins og í Króatíu. Í Króatíu var hins vegar lokunarskilyrði sem fól það í sér að regluverkið væri formlega farið að virka og hefði tekið gildi áður en samningskaflanum væri lokað. Það er þess vegna sem fram kemur í þessari skýrslu, vil ég meina, að gert er ráð fyrir því að aðildarríki, umsóknarríki sækist eftir aðild að Evrópusambandinu.

Fer sá sem hér stendur með rangt mál? Er það rangt (Forseti hringir.) sem stendur í skýrslunni og lýsir þessu eða (Forseti hringir.) er hv. þingmaður enn þeirrar skoðunar að hægt sé að sækja um aðild, (Forseti hringir.) aðlagast regluverki og kjósa svo um hvort við viljum ganga í (Forseti hringir.) Evrópusambandið, eins og lýst er í skýrslunni og komið hefur fram í reynslu annarra ríkja?