143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að það er mikið grundvallaratriði hvort hægt sé að semja — ég ætla nú ekki að fara í orðhengilsháttinn sem sumir þingmenn hér vilja leggjast í — um sérlausnir eða undanþágur eða hvað sem við köllum það. Ég held að við vitum öll hvað við eigum við. Þetta er grundvallaratriði. Ég ætla ekki að fjalla um það hér í dag. Ég ætla að gera það í ræðu minni á morgun.

Hæstv. ráðherra sagði hins vegar að það stæði í stjórnarsáttmálanum, og hann kann það betur en ég og ég vona að ég fari rétt með, að taka ætti næstu skref eftir að þessi skýrsla kæmi fram.

Nú er einnig ljóst að önnur skýrsla er á leiðinni. Hún er væntanleg eftir mánuð eða svo. Hæstv. utanríkisráðherra, miðað við það sem hann sagði í ræðustól í gær, finnst ekki mikið til þess koma að það sé að koma skýrsla frá þeim sem kallaðir eru aðilar vinnumarkaðarins. Eftir því sem sagt er, nú veit ég að það má ekki segja „eftir því sem sagt er“ en samt ætla ég að segja það, þá verður meira hagsmunamat í þeirri skýrslu, þ.e. meira tillit tekið til hagsmuna atvinnulífs í landinu og launþega.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi sömu væntingar til þeirrar skýrslu og starfsbróðir hans í ríkisstjórninni og kæri sig kollóttan um hvað mun standa í henni.