143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:24]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir kynninguna á skýrslunni. Ég veit ekki hvort hún gagnast okkur eitthvað eða ekki, ég veit það ekki. Ég sé svolítið eftir þeim 25 milljónum sem fóru í þá vinnu en það er önnur saga.

Allt frá því að ég fór að fylgjast með í stjórnmálum, og eiginlega alltaf, hefur umræða um Evrópusambandið herjað á okkur Íslendinga, endalaust verið að tala um Evrópusambandið, kosti þess og galla. Ég er einn af þeim sem eru ekki endilega að segja að Evrópusambandið sé fullkomið, það er langt í frá. Það er ekki fullkomið frekar en nokkuð annað í þessum heimi. En í þeirri umræðu hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf verið svolítið áberandi og oftar en ekki finnst mér einhvern veginn eins og hann hafi verið sammála því að ganga inn í sambandið, skoða það. Ég las það til dæmis á bloggi hjá hæstv. forseta þingsins, Einari K. Guðfinnssyni, þar sem hann tekur einmitt fram að þessi bábilja sjálfstæðismanna að halda að við mundum missa fiskaflann okkar ef við gengjum þangað inn væri bara röng. Þeir hefðu komist að því eftir að hafa grandskoðað það að það væri bara rangt.

Síðan er líka mjög athyglisverð grein sem hæstv. fjármálaráðherra skrifaði ásamt hæstv. menntamálaráðherra í desember 2009 þar sem þeir segja að Ísland eigi að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og innganga í sambandið verði borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Það eru ekki mörg ár síðan þetta var. Ég velti því fyrir mér: Hvað hefur breyst svona í Evrópusambandinu sem gerir það að verkum að sjálfstæðismenn vilja alls ekki fara þangað inn. Hvað hefur breyst? Það er alveg greinilegt að þið sem skrifuðuð þá grein — það er alla vega mín skoðun — hafið áttað ykkur á því að þetta gengi ekki lengur á Íslandi. Ég segi: Hvað hefur breyst á Íslandi? Hefur ástandið á Íslandi breyst eitthvað og hvað hefur gert það að verkum að þið viljið ekki ganga inn í Evrópusambandið miðað við það sem þið sögðuð fyrir nokkrum árum?