143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það ekki þannig að ég hafi lagt fram þessa skýrslu. Hún er lögð fram af öðrum ráðherra og ég skil vel ábendingar um að það gæti verið skynsamlegt að hún færi til utanríkismálanefndar. Ég sagðist vera opinn fyrir því og það þýðir að mér er ekki á móti skapi að hún sé rædd frekar þar. Ég held að ég hafi svarað þessu ágætlega fyrr í dag.

Sömuleiðis hef ég varið stórum hluta þess tíma sem ég hef fengið til að flytja ræður í dag til að útskýra það með rökum hvernig spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald þessa máls horfir við mér, bæði hvaða ástæður kunna að vera fyrir því að skoðanakannanir liggja eins og þær gera á sama tíma og lítill stuðningur mælist við inngöngu í Evrópusambandið og síðan hitt hversu miklum vandkvæðum það er bundið að fylgja eftir þeim vilja þjóðarinnar sem kæmi hugsanlega út úr slíkri atkvæðagreiðslu að vilja halda áfram með viðræður. Þar tel ég að hv. þingmaður hafi unnið nokkuð mikið afrek á undanförnum árum í því að fá þjóðina til að trúa því að við værum ekki í aðildarviðræðum við Evrópusambandið heldur í einhverjum sjálfstæðum samningaviðræðum við Evrópusambandið. Þar hefur málflutningur hæstv. fyrrverandi ráðherra, hv. þingmanns, náð slíkum hæðum á Íslandi að þess þekkjast engin dæmi í öðrum umsóknarríkjum að meira eða minna öll umræða um mögulega Evrópusambandsaðild hafi snúist um möguleikann á frábærum samningi.

Ég tel að skýrslan sem við höfum í höndum í dag eigi að draga mjög úr væntingum manna sem lesa hana, alla vega með sömu augum og ég, um að það kunni að vera möguleiki. Þegar þetta kemst til skila almennt í umræðunni á Íslandi tel ég að menn komist á sömu skoðun (Forseti hringir.) og ég hef verið að lýsa í dag; að það sé til staðar ákveðinn pólitískur ómöguleiki til að fylgja slíkri niðurstöðu eftir.