143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að skýrslan dragi úr væntingum manna til aðildar en skýrslan dregur ekki úr væntingum mínum til hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef starfað með honum lengi á Alþingi og hann hefur alltaf verið maður orða sinna.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti skoðun sinni fyrir kosningar. Það er vel hugsanlegt að það hafi skapast aðstæður við kosningaúrslitin sem voru öðruvísi en hann vænti og það væri hugsanlega lögmætt að hann skipti um skoðun eftir kosningar. En hann gerði það ekki, hann endurtók þetta. Hæstv. fjármálaráðherra verður að skýra það fyrir mér, ef ekki fyrir sínum eigin flokksmönnum, hvort hann ætli að standa við sín eigin orð eða ekki.

Að öðru leyti, ef hæstv fjármálaráðherra telur að það sé erfitt að ljúka þessum samningaviðræðum veit hann a.m.k. að það er vanur maður á lausu.