143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að tæpa á vissum grundvallaratriðum. Mér finnst eins og þau gleymist í karpinu, sem er kannski nauðsynlegt að fari fram en hefur svolítið mikið farið fram í þingsalnum, þó að umræðan hafi vissulega verið málefnaleg.

Ísland er Evrópuþjóð. Við erum í Evrópu. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr erum við í mjög margslungnum og miklum samskiptum við aðrar Evrópuþjóðir. Þau lýsa sér meðal annars í því að einn þriðji af þeim stjórnarfrumvörpum sem eru lögð fram á þessum þingvetri er, að ég hygg, löggjöf komin beint frá Evrópusambandinu. Þetta er dálítið magnað. Við erum sem sé ekkert að ræða það hér hvort við ætlum að byrja eitthvert samstarf við Evrópusambandið eða ekki, hvort við ætlum að vera Evrópuþjóð eða ekki. Meginhluti viðskipta okkar er við Evrópulöndin, Íslendingar fara þangað út í nám, við eigum alls konar samstarf í vísindum og menningu við Evrópulöndin og höfum haft um áratugaskeið og aldir. Við deilum sameiginlegum gildum um mannréttindi og lýðræði og það er mikilvægt í heimsmyndinni eins og hún er.

Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki að ræða hvort við ætlum að tilheyra Evrópu eða ekki. Við erum að ræða það með hvaða hætti er best að haga þessum samskiptum við Evrópusambandið, hvernig stöðu við ætlum að taka okkur í þessum óhjákvæmilegu og mikilvægu samskiptum við Evrópulöndin.

Þróun Íslendinga hefur verið sú að við fórum inn í EFTA, við tókum þátt í því samstarfi Evrópuríkjanna. Við fórum í samningaviðræður um Evrópska efnahagssvæðið. Það var umdeilt mál en ég held að enginn sjái eftir því. Það er rökrétt næsta skref að íhuga mjög vandlega hvort við ætlum að gerast fullir aðilar að Evrópusambandinu. Bara einfaldlega miðað við hvernig saga þessara samskipta hefur verið á 20. öldinni og þeirri 21., jafnvel fyrr, er mjög rökrétt að við íhugum vandlega hvort við ætlum að gerast aðilar eða ekki. Það er mér mikið umhugsunarefni hversu erfiðlega gengur að fá botn í það mál miðað við hvernig sagan hefur verið og miðað við hvað við eigum þó í miklum samskiptum við Evrópu. Ég hef velt fyrir mér hvort það séu einfaldlega sérhagsmunir í íslensku samfélagi sem hafa staðið vörð um þá hagsmuni sína og séu á móti því að við útkljáum þetta mál.

Nú ætla ég að koma að öðru grundvallaratriði. Við ákveðum ekki í þessum þingsal hvort íslensk þjóð gerist aðili að Evrópusambandinu. Hér var ákveðið að sækja um en það er þjóðin, ég held að enginn hafi dregið það í efa, það hefur enginn haldið öðru fram, sem útkljáir það í upplýstri atkvæðagreiðslu hvort hún vill gerast aðili að Evrópusambandinu. Enginn hefur sagt neitt annað, þetta er algjört grundvallaratriði.

Þá kem ég að þriðja grundvallaratriðinu í mínum huga. Til að þjóðin geti tekið ákvörðun, til að hún geti lagt mat á það hvort það sé rökrétt næsta skref í öllu þessu ferli að gerast aðili að Evrópusambandinu, þarf að liggja fyrir samningur. Aðrar atkvæðagreiðslur eru í raun og veru markleysa. Þetta sýna atkvæðagreiðslur í öllum öðrum ríkjum. Það er viðtekin venja að þjóðir greiða atkvæði um aðild og hvort þær vilji hana eða ekki. Það er samningurinn sjálfur sem hefur grundvallaráhrif á viðhorf fólks og mér er það enn og aftur umhugsunarefni af hverju við getum ekki klárað þetta mál. Af hverju getum við það ekki?

Hér er komin skýrsla sem ég er búinn að lesa yfir og ég ætla að gera það vandlegar. Mér heyrist að það eigi að reyna að nota þessa skýrslu sem rökstuðning fyrir því að hætta þessum viðræðum. Ég sé engan slíkan rökstuðning í skýrslunni. Ég sé ekkert nýtt, ég sé enga ástæðu til að hætta við allt ferlið. Hér er ýmislegt rakið sem hefur verið rakið áður eins og staða viðræðnanna við Evrópusambandið. Hún var rakin í ágætri skýrslu fyrir ári. Það er vel vitað að það á eftir að opna nokkra kafla. Það þarf bara að opna þá. Viðræðurnar hafa gengið vel en þær gengu aðeins hægar en kannski hefði best verið á kosið. Mér finnst í rauninni stórtíðindi í þessari skýrslu að af 33 köflum sem semja þarf um — þeir eru 35 alls en um tvo þarf ekki að semja — er í rauninni einn sem er vandamál, sjávarútvegskaflinn.

Það eru stórtíðindi í þessari skýrslu að það er viðurkennt að landbúnaðarkaflinn er ekki vandamál.

Á bls. 34 segir, með leyfi forseta:

„Af viðræðum við embættismenn í Evrópusambandinu verður ekki annað ráðið en að þeir hafi ekki séð fyrir óleysanleg vandamál og þrátt fyrir að ekki hefði verið hægt að semja um undanþágu frá niðurfellingu tollverndar hefði mátt ræða hvernig mætti koma til móts við innlenda framleiðendur til að bæta þeim upp tap af afnámi verndartolla.“

Allar lausnir eru mögulegar í okkar þágu í landbúnaðarmálum og það er viðurkennt í þessari skýrslu þannig að þetta eru stórtíðindi. Við lögðum upp með að það væru líklega tveir kaflar sem yrðu verulegt vandamál, kaflarnir um sjávarútveg og landbúnað. Eftir stendur að sjávarútvegurinn er vandamál. Eru það mikil tíðindi? Nei, það eru ekki mikil tíðindi. Það hefur legið fyrir frá upphafi og í allri þessari umræðu að það yrði vandkvæðum bundið að semja við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál, alltaf. Þess vegna hefur það alltaf verið tekið skýrt fram í allri afstöðu Íslendinga í þessu máli að þeir legðu ríka áherslu á sjávarútvegsmál og yfirráð yfir sjávarútvegsmálum. Það hefur alltaf legið fyrir.

Núna er svolítið skrýtið að taka þátt í þessari umræðu. Það er eins og Evrópusambandið eigi sér málsvara á undarlegan hátt í málflutningi stjórnarmeirihlutans á þingi. Eitt grundvallaratriði sem ég held að við verðum að átta okkur á er að Evrópusambandið er viðsemjandi í aðildarviðræðum. Evrópusambandið hefur samningsafstöðu og mér hefur fundist þingmenn stjórnarmeirihlutans afskaplega vel verseraðir í þessari samningsafstöðu. Það vantar ekki. Hún hefur margoft komið fram en það sem við verðum að minna okkur á er að þetta er samningsafstaða Evrópusambandsins. Við nálgumst til dæmis ekki makríldeiluna svona, við förum ekki unnvörpum í pontu í þingsal og lýsum því yfir að Evrópusambandið hafi lýst því yfir að í makrílmálum væri ekkert um að semja, að Íslendingar fengju engan aukinn kvóta, það væri því ekkert um að semja og ástæðulaust að fara í þá vegferð að semja við Evrópusambandið um það. Auðvitað gerir það enginn. Auðvitað ræðum við ekki málin á þeim nótum hér.

Afstaða Evrópusambandsins hefur líka alltaf legið fyrir, er sem sagt sú að það eru ekki gerðar undanþágur. Evrópusambandið vill leitast við að regluverkið innan Evrópusambandsins sé sem einsleitast. Það er afstaða Evrópusambandsins. Þetta hefur alltaf legið fyrir og er til dæmis ágætlega rakið í skýrslu frá árinu 2007 um tengsl Íslands og Evrópusambandsins sem nefnd skipuð af Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, gaf út. Þar segir í framhaldi af því að það er vissulega rakið að engar undanþágur séu veittar, með leyfi forseta:

„Komi upp vandamál vegna ákveðinnar sérstöðu eða sérstakra aðstæðna í umsóknarríki er þó reynt að leysa málið með því að semja um tilteknar afmarkaðar sérlausnir.“

Þetta er svo dásamlega skýrt af hálfu þessarar nefndar sem ég held að hv. þáverandi þm. Björn Bjarnason hafi til dæmis verið í. Þetta segir allt sem segja þarf um þetta mál, ef það koma upp vandamál eða upp kemur eitthvað sem er ekki hægt að semja um — markmiðið er að ná aðildarsamningi — er reynt að búa til sérlausnir, m.a. í sjávarútvegi. Vissulega er vandasamt að semja um sjávarútvegsmálin, það er mjög vandasamt, en ef við gerðum ráð fyrir að fulltrúar Evrópusambandsins væru í þessum þingsal og segðu einfaldlega: Við viljum engar undanþágur, hvað mundum við segja á móti?

Fyrir það fyrsta mundum við benda á augljósa sérstöðu Íslendinga, og höfum gert það í öllu þessu ferli. Við erum eina ríkið sem er eyland í Norður-Atlantshafi sem veiðir að meginhluta til úr eigin stofnum. Sameiginlega sjávarútvegsstefnan á því ekki við um Ísland. Þetta er algjör nýbreytni og ég veit ekki hvort við þyrftum að benda fulltrúum Evrópusambandsins mögulega á að hugtakið sérlausn felur í eðli sínu í sér fordæmaleysi. Það er sérlausn, er um eitthvað sem hefur ekki komið upp áður, samanber sérlausnina um heimskautalandbúnað, um landbúnað norðan við 62. breiddargráðu. Slík lausn hafði ekki verið til áður, ekki fyrr en samið var við Finna. Við mundum því freista þess að búa til sérlausn um íslenskan sjávarútveg, grundvallaðan á augljósri sérstöðu. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Í öðru lagi, sem er sóknarfæri Íslendinga í sjávarútvegsmálum, er rúm til túlkana innan regluverks og stofnsáttmála Evrópusambandsins. Í Rómarsáttmálanum, Amsterdam-sáttmálanum, Maastricht-sáttmálanum, stofnsáttmála Evrópusambandsins, er til dæmis farið sérstökum orðum um eyjar sem eru fjarri meginlandinu, Asoreyjar og Kanarí svo dæmi séu tekin. Skýrt leyfi er veitt til sérlausna í tilviki þessara eyja. Mér er kunnugt um það að innan viðræðunefndar Íslendinga hefur farið fram vinna. Farin var af stað vinna við að athuga hvort þessi ákvæði gætu nýst Íslendingnum til að fá sérlausn á grunni stofnsáttmála, grunni grunnsáttmála Evrópusambandsins sjálfs. Þarna var augljóst sóknarfæri.

Í þriðja lagi getur einfaldlega verið að regluverkið sjálft bjóði upp á alls konar viðunandi lausnir eins og meginreglan um hlutfallslegan stöðugleika sem gildir í sjávarútvegi. Hún getur nýst okkur á margvíslegan hátt. Svo getur líka verið vilji til breytinga af hálfu sambandsins sjálfs. Við höfum séð í sjávarútvegsmálum að Evrópusambandið hefur sjálft farið í mikla rýnivinnu í sjávarútvegsmálum og horft jafnvel til Íslendinga í þeim málum. Þarna ber að líta á það sem er algjört grundvallaratriði að aðildarsamningur er ígildi stofnsáttmála. Ríkin nota aðildarsamninga, ESB notar aðildarsamninga til að breyta regluverki sínu. Það getur vel verið að þetta sé fjarlægur möguleiki en þetta er einn af þeim þannig að það eru alls konar leiðir.

Í þessari skýrslu er leitast við að segja að það sé ólíklegt að við náum samkomulagi í sjávarútvegsmálum. Það er alveg eins hægt að segja að það sé líklegt. Við vitum einfaldlega ekki hver niðurstaðan verður í sjávarútvegsmálum en við höfum góðan málstað. Það kemur mér svolítið á óvart hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur lagt áherslu á það í málflutningi sínum hér í dag að við höfum ekki góðan málstað. Mér finnst hann góður og ég vona að stjórnarmeirihlutinn nálgist ekki önnur mál sem við þurfum að semja um við nágrannaríki okkar eða aðrar þjóðir með því hugarfari að taka upp næstum hráa samningsafstöðu viðsemjenda okkar. Það gengur ekki. Ef skýrslan gengur út á það gengur heldur ekki að skrifa þannig skýrslu.

Að síðustu. Þessi skýrsla er stöðumat, allt í lagi, það er fínt. Í henni er rakin staðan í Evrópusambandinu, tölur frá Eurostat eru þarna og staða aðildarviðræðnanna. Hún tekur líka á ýmsum mýtum. Við erum ekki að fara að missa yfirráð yfir auðlindum okkar. Það hefur verið sagt margoft í þessum þingsal. Við getum þá hætt að hafa áhyggjur af því, þ.e. þeir þingmenn sem hafa haft áhyggjur af því. Það er algjörlega staðfest þarna sem margir vissu. Það er ágæt umfjöllun um efnahagslífið. Í fyrra voru margir með stórar upphrópanir um að Evrópusambandið væri einfaldlega að fara fyrir björg í efnahagsmálum. Það er ekki að gerast. Evrusamstarfið stendur traust en að sjálfsögðu er Evrópusambandið samvinnuverkefni og það eru mér vonbrigði að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki vera mér sá bróðir í samvinnuhugsjóninni sem ég vonaðist til að hann væri í þessu máli. Það er grundvallaratriði, þetta er samvinna fullvalda ríkja. Við getum meira að segja sagt okkur úr þessari samvinnu ef við svo kjósum, en ekkert ríki hefur gert það.

Það sem liggur fyrir núna sem næsta skref í þessari umræðu er að sjá hvort það sé verulegur ábati af því, efnahagslegur, lýðræðislegur og umhverfislegur varðandi málefni norðurslóða, mannréttindi og hitt og þetta, hvort það sé ábati af því fyrir Íslendinga og jafnvel fyrir Evrópuþjóðirnar líka að við gerumst fullir aðilar.