143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann byrjaði hana með því að segja að hann skildi eiginlega ekki þá sem væru á móti því að klára þessar viðræður, það hlytu að búa einhverjir sérhagsmunir að baki. Ég ætla að vona að hann hafi ekki átt við mig, að ég hafi einhverja sérhagsmuni.

Það sem leiðir afstöðu mína er að ef ég horfi svo sem eins og 100 ár aftur í tímann eða 200 ár. Frá því að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki hafa lífskjör á Íslandi ekkert gert annað en að batna, þau hafa ekki gert neitt annað en að batna síðan Ísland tók málin í sínar hendur frá því að vera í sambandsríki við ríki í Evrópu í 600 ár. Það er mín afstaða, það eru engir sérhagsmunir og ég frábið mér svoleiðis athugasemdir. Ég er að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar.

Hv. þingmaður gengur út frá því sem nauðhyggju að sækja um aðild að Evrópusambandinu, að við verðum að sækja um aðild. Af hverju í ósköpunum skyldum við verða að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Við getum hreinlega bara sleppt því. Við þurfum ekkert að sækja um, við höfum ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu frá því að það var stofnað þangað til núna, 2009, með mjög veikum meiri hluta á Alþingi eins og ég gat um.

Svo nefndi hv. þingmaður makrílinn sem dæmi. Það er fínt dæmi, af hverju erum við að deila um makríl? Vegna þess að Noregur, Færeyjar og Íslendingar eru ekki aðilar að Evrópusambandinu. Annars væri engin deila um makrílinn, Evrópusambandið mundi ákveða þetta og segja að Frakkar og Þjóðverjar og Spánverjar mundu veiða hann.

Með sérlausnir fyrir Ísland, varanlegar undanþágur og sérlausnir? Það er rétt, það getur vel verið að þeir skilgreini þetta svona. Ég segi við hv. þingmann: Eftir 20–30 ár breyta þeir því aftur. Þá segja þeir: Þetta eru ekki lengur sérlausnir.