143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að breyta aðildarsamningi nema með samþykki allra ríkja. Þetta er samstarf fullvalda ríkja og neitunarvald ríkjanna er mjög ríkt, það er mjög mikilvægt að átta sig á því grundvallaratriði.

Ég talaði um sérhagsmuni, já, og átti þá ekki sérstaklega við hv. þm. Pétur H. Blöndal eða yfirleitt á nokkurn hátt. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að ræða ákveðna sérhagsmuni og hvort þeir njóti fullmikils góðs af því ástandi efnahagsmála sem einkennt hefur íslenskt samfélag um áratugaskeið. Þar á ég auðvitað við samneyti við gjaldmiðil sem hefur hríðfallið og stutt óhóflega við ákveðnar úflutningsgreinar, einkum í sjávarútvegi. Á sama tíma hefur verið starfrækt hér einhver mesta verndarstefna í landbúnaði sem yrði væntanlega endurskoðuð við inngöngu í ESB. Mér finnst alls ekki langsótt að halda því fram að aðilar í sjávarútvegi sem notið hafa góðs af gengisfalli íslensku krónunnar um áratugaskeið séu hugsanlega ekki áhugasamir um að hafa stöðugt efnahagslíf mögulega með samningi við Evrópusambandið.

Mér finnst heldur ekkert langsótt að þeir sem njóta mikillar verndar núna í landbúnaði, matvælaiðnaði vilji ekki láta þau forréttindi af hendi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að horfa á málið út frá sjónarmiðum almannahagsmuna. Þar vona ég að við hv. þingmaður eigum samleið.