143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg séð fyrir mér sérhagsmuni hinna sem vilja sækja um, ekki síður og reyndar miklu frekar. Að tala um sérhagsmuni í þessu sambandi held ég að sé ansi fráleitt því að við erum að tala um framtíðarskipan ríkjasambands næstu 100 eða 200 árin. Það er ekki verið að sækja um í eina viku í Evrópusambandinu, þetta er miklu stærra mál. Og að sjávarútvegurinn sé vandamál — af hverju í ósköpunum var það þá ekki tekið sem fyrsta mál á dagskrá í aðlögunarviðræðunum? Þetta voru aðlögunarviðræður, þetta voru ekki samningaviðræður. Af hverju var það mál ekki tekið fyrst á dagskrá og athugað hvort hægt væri að fá sérlausn fyrir íslenskt hafsvæði inn í stofnsáttmálann sem mundi þá gilda um aldur og ævi en væri ekki bráðabirgðabreyting sem menn gætu svo breytt eftir 20 ár, 30 ár, 40 ár? Það er það sem ég óttast. Það sem ég óttast mest af öllu í sambandi við Evrópusambandið er að okkar mál verði afgreidd í Brussel, að við þurfum fara til Brussel til að fá fjárfestingar, styrki og annað slíkt, nákvæmlega eins og Ísfirðingar þurfa að fara til Reykjavíkur til að afgreiða sín mál, fara á sjúkrahús eða hvað það nú er. Þá erum við eins og eitthvert lítið mál nr. 136 hjá einhverjum embættismanni í Brussel. Bretar og Hollendingar og Spánverjar eru náttúrlega nr. eitt, tvö og þrjú og svo erum við einhvers staðar lengst fyrir aftan. Við bíðum og bíðum eftir ákvörðun og þess vegna mun efnahagslífið á Íslandi dala eins og það gerði í löngu samstarfi við ágætisþjóð í Evrópu sem er Danmörk.

Ég held að þetta sé aðalmálið. Við þurfum að stjórna okkar eigin málum sjálf og ekki ganga í neitt efnahagsbandalag. Ég mótmæli þeirri nauðhyggju að við verðum að sækja um af því að Evrópusambandið er til staðar.