143. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru æðimargar spurningar og yfirgripsmiklar. Fyrst þetta með atvinnulífið. Hvenær í ósköpunum sagði ég að ég vildi ekki fjalla um hagsmuni atvinnulífsins í ábatagreiningu á því hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið eða ekki? Þetta er fullkominn útúrsnúningur á orðum mínum. Ég held til dæmis að sú skoðun fari vaxandi innan sjávarútvegsins að hann njóti góðs af stöðugleika í gjaldmiðilsmálum. Hann mundi njóta góðs af lægri vöxtum á markaði á Íslandi svo að dæmi sé tekið. Hann mundi njóta góðs af óheftum aðgangi að innri markaði Evrópusambandsins.

Ég held að þessi sjónarmið séu vaxandi innan sjávarútvegsins. En sjávarútvegurinn hefur, a.m.k. margir innan hans, leyfi ég mér að halda fram, staðið vörð um hinn svokallaða sveigjanleika íslensku krónunnar sem snýst um að fella gengi hennar til að bjarga útflutningi, aðallega sjávarútvegi. Það hefur háð uppbyggingu í atvinnulífi og fjölbreytni. Þetta er ágætlega rakið í skýrslu Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum. Ef við mundum ná stöðugleika með stöðugum gjaldmiðli gætum við aukið fjölbreytni í atvinnulífi og aukið útflutningstekjur um allt að 11%.

Ég er vissulega að hugsa um atvinnulífið. Efnahagslegi þátturinn að mögulegri inngöngu í Evrópusambandið hefur allt of lítið verið ræddur hér. Erum við svo sérstök að við fengjum á silfurfati sérlausn í sjávarútvegi? Nei, því hef ég aldrei haldið fram. Ég rakti það einmitt í ræðu minni að við værum ekkert svo sérstök. Það eru 33 kaflar sem þarf að semja um, 32 þeirra sýnast mér ekki vera neitt vandamál. Við erum svo mikil Evrópuþjóð. Það er einn kafli sem er vandamál. Ég rakti það í ræðu minni, vegna þess að ég er bjartsýnn að eðlisfari, að við hefðum mjög mörg sóknarfæri til að semja um miðnæturlausn í því eina máli.