143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

skýrsla Alþjóðastofnunar háskólans um ESB.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þegar menn blanda sér í þjóðmálaumræðuna og hafa sterkar skoðanir á pólitískum málefnum er að sjálfsögðu eðlilegt að þeir sem ekki eru sömu skoðunar bregðist við því, þ.e. það hlýtur að vera eðlilegt að menn geti rökrætt. Af því að hv. þingmaður sér ástæðu til að setja sérstaklega út á það að ég skuli nefna hér að ákveðnir menn í háskólanum hafi tilteknar skoðanir skýtur það skökku við, sérstaklega í þessu tilviki þar sem um er að ræða núverandi, a.m.k. fyrrverandi, varaþingmann Samfylkingarinnar sem hefur ekki farið leynt með skoðanir sínar, hvorki í umræðu almennt í samfélaginu né í þessum ræðustól.

Það að starfa í háskólaumhverfi þýðir ekki að menn séu heilagir og ekki megi rökræða við þá. (Gripið fram í.) Þvert á móti hlýtur tilgangurinn með því að menn setji fram og reyni að rökstyðja skoðanir að vera sá að það veki umræðu og einhver viðbrögð og ekkert nema gott um það að segja. (Forseti hringir.) Þannig að þegar sú skýrsla sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður spyr um birtist er sjálfsagt að ræða hana eins og önnur gögn.