143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

þjóðmálaumræðan.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála öllu því sem hv. þingmaður sagði í fyrri hluta fyrirspurnar sinnar en seinni hlutinn gekk hins vegar að mínu mati algerlega gegn staðhæfingum hv. þingmanns í fyrri hlutanum. Ef það á að vera gott fordæmi að stuðla að umræðu og rökræðu hljóta menn að mega í fyrsta lagi benda á það sem þeir telja að betur megi fara, telja jafnvel ámælisvert og þeir hljóta líka að mega ræða um afstöðu manna sama hvar þeir vinna, sama hvort þeir vinna hér á þessum vinnustað, Alþingi, eða í háskólanum. Ef menn ætla raunverulega að standa að rökræðu í samfélaginu þá mega ekki vera neinar heilagar kýr í því.

Það sem ég rakti í ræðu á viðskiptaþingi snerist jú um vissa gagnrýni á það hvernig samtök atvinnurekenda hefðu staðið að málum á því tímabili sem hv. þingmaður vísaði til, aðdraganda efnahagshrunsins og á árunum eftir hrun. Það hlýtur að vera ásættanlegt, ef ekki bara krafa um það, að mati hv. þingmanns að efna til umræðu um slíkt. Telur hv. þingmaður að öll samtök atvinnurekenda hafi farið fram eins og bestur var kostur í aðdraganda efnahagshrunsins og eftir það, t.d. í umræðunni um Icesave-samningana? Er ekki eðlilegt að skoða það sem betur hefði mátt fara í því? Er ekki líka eðlilegt að skoða hvernig lífeyrissjóðirnir geta betur komið að því að skapa störf í landinu og aukin verðmæti? Og er ekki eðlilegt að menn leyfi sér að rökræða stefnu Seðlabankans sem hefur svo mikil áhrif á efnahagsþróun í landinu og lífskjör í landinu? Eða eru þetta allt heilagar kýr sem á ekki að ræða, á ekki að gagnrýna, á ekki einu sinni að nefna kannski?