143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

þjóðmálaumræðan.

[10:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Nei, ég vil ekki heilagar kýr. Ég tel að við eigum að ræða mál opinskátt en mér finnst það vera orðinn ákveðinn rauður þráður í viðhorfum hæstv. forsætisráðherra til rökræðu að það teljist galli að fólk hafi skoðanir sem tekur þátt í rökræðunni. Fólk er jafnvel fyrir fram útilokað sem þátttakendur í þeirri rökræðu sem hæstv. forsætisráðherra vill að fari fram vegna þess að það hefur ákveðnar skoðanir.

Ég tel og það er mín skoðun að það sé forsenda rökræðu að fólk hafi skoðanir. Fólk rökstyður skoðanir sínar og þess vegna tel ég til dæmis ámælisvert að gera því skóna að háskólaprófessorar sem standa að rannsóknum í landbúnaðarmálum — talandi um heilagar kýr — og birta niðurstöður rannsókna sinna í blöðum með rökstuðningi séu afgreiddir sem krossfarar. Ég kalla einmitt eftir rökræðunni.

Mér finnst afskaplega mikilvægt að þeir sem hafa (Forseti hringir.) skoðanir í samfélaginu þurfi ekki að búa við það að vera uppnefndir af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Þetta er grundvallaratriði.