143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekki alveg rétt eftir haft og raunar, eins og ég hef bent á áður, fyrir alllöngu í viðtali, var ekki að öllu leyti rétt eftir haft í þessu viðtali, t.d. hvað varðaði að afnámsáætlun ætti að byggjast, eins og hv. þingmaður orðaði það, að einhverju leyti á hugmyndum mínum. Hið rétta var að ég sagðist hafa einhverja hugmynd um hvernig slík afnámsáætlun mundi líklega líta út frekar en að ég ætlaði að semja hana alla sjálfur.

Hvað varðar hins vegar vinnu við þetta hefur það líka komið fram áður að afnámsáætlun verður líklega ekki birt. Það þjónar ekki tilganginum að gera þá áætlun sem stjórnvöld hafa um afnám hafta opinbera, gæti raunar miklu frekar þjónað hagsmunum vogunarsjóða og annarra kröfuhafa, t.d. í slitabú bankanna.

Það er ekki við því að búast að stjórnvöld muni útlista nákvæmlega hvernig þau sjá fyrir sér og hvenær höftin verði afnumin. Síðasta afnámsáætlun var birt árið 2011, ef ég man rétt, og reyndist byggð á algjörlega röngum forsendum.

Nú stendur enn yfir vinna, af því að hv. þingmaður spyr um stöðuna á vinnunni, í Seðlabankanum við mat á greiðslujöfnuði sem er auðvitað grundvallarmat í þessu öllu saman. Ég vona að hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sárni ekki þó að ég segi að sú vinna hafi tekið heldur lengri tíma en maður hafði vonast eftir, en eftir því sem ég kemst næst styttist í að niðurstaða liggi fyrir af hálfu Seðlabankans varðandi mat á greiðslujöfnuði og það er, eins og ég gat um, grundvallarstærð í þessu öllu saman.