143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðgerðir og biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:54]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Málefni heilbrigðisþjónustunnar hafa verið talsvert í umræðunni undanfarin ár. Fjallað hefur verið um aðbúnað sjúklinga og starfsfólks og hefur sú umræða að mestu verið um Landspítalann. Einnig hefur verið fjallað um langa biðlista eftir aðgerðum. Samkvæmt upplýsingum af vef embættis landlæknis hafa biðlistar í aðgerðir á kvennadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss lengst töluvert undanfarið. Um er að ræða tölur frá því snemma í haust en mig langar að fá upplýsingar um hver staðan er í dag.

Mig langar að velta upp nokkrum spurningum í því samhengi og spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvað eru langir biðlistar eftir aðgerðum á kvennadeild Landspítalans?

2. Hvað eru langir biðlistar eftir aðgerðum á kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri?

3. Hversu langir biðlistar eru eftir aðgerðum á kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi?

Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra hugmynd um hve margar aðgerðir eru framkvæmdar árlega á hverri deild? Hefur hann upplýsingar um hversu mörgum aðgerðum væri hægt að bæta við á hverju ári á kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri annars vegar og kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hins vegar?

Ég geri mér fulla grein fyrir að þetta eru töluvert margar spurningar og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur eingöngu stuttan tíma til að svara. En við sjáum hvað setur.

Að lokum langar mig að spyrja: Eru þær konur sem bíða eftir aðgerðum á kvennadeild Landspítala upplýstar um það ef biðtíminn er styttri á Sjúkrahúsinu á Akureyri eða á Heilbrigðisstofnun Vesturlands?