143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

flóttamenn frá Úkraínu.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi ástandið almennt í Úkraínu tek ég undir með hv. þingmanni að ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af því, og raunar hefur komið á óvart hversu hratt hlutir hafa þróast þar til verri vegar þar til í gær að þeir fóru aftur að lagast, að því er manni skilst, með samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu.

Úkraína er hins vegar, þrátt fyrir þær óeirðir og árásir á borgara sem þar hafa átt sér stað, þróað ríki. Úkraína hefur á undanförnum árum tekið verulegum framförum á ýmsum sviðum og maður vonast að sjálfsögðu til að sú þróun haldi áfram. Ég tel að ástæða sé til bjartsýni fyrir íbúa Úkraínu ef mönnum auðnast að sætta þessi ólíku sjónarmið og þau átök sem hafa staðið yfir að undanförnu, vegna þess að Úkraína hefur alveg gríðarleg tækifæri til framtíðar og ástæða til að óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Hvað varðar mat mitt á vinnureglum Útlendingastofnunar þá ætla ég ekki að fara að hlutast til um það. Þar gilda ákveðnar reglur sem menn halda sig við. Hvað Úkraínu varðar er hins vegar ekki stríð í landinu. Það hafa jú verið hörð átök í Kænugarði milli fylkinga þar, en við skulum vona að það endi ekki í borgarastyrjöld og raunar tel ég allar líkur á því að menn muni sleppa við slíkt. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að segja til um það hvernig Útlendingastofnun á að afgreiða þau erindi sem henni berast. Um það gilda ákveðnar fyrir fram mótaðar reglur.