143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það má segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé mjög ljóðrænn maður og fari mikinn eins og honum er tamt. Ég vil ekki taka þátt í einhverri hræsni. Mér finnst það vera hræsni að kalla eftir því að ríkisstjórn, sem ég hef ekki heyrt neitt frá um málið, muni virða þjóðaratkvæðagreiðslu þó svo mikill hluti landsmanna tæki þátt í henni eins og var þegar þjóðaratkvæðagreiðsla var um nýja stjórnarskrá. Mér finnst það vera ákveðin hræsni að ýta á eftir einhverju sem gefur fólki falsvonir.

Síðasta ríkisstjórn guggnaði á síðustu metrunum þegar kom að stjórnarskránni, því miður. Það er alveg ljóst að það samkomulag sem allir formenn flokkanna gerðu með sér, fyrir utan formann Hreyfingarinnar, verður aldrei haldið, því miður. Á ég þá að berjast fyrir því að fólki sé gefin falsvon? Á ég ekki frekar að berjast, og ég óska eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson berjist með mér, fyrir því að við fáum þá nauðsynlegu breytingu í stjórnarskrána sem tryggir að það verði stjórnarskrárvarin réttindi að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og sú þjóðaratkvæðagreiðsla verði virt. (Gripið fram í: … fer þá ekki …) Eins og sagan sýnir er ekki neitt sem tryggir að ekki fari eins fyrir þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér er kallað eftir frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og þeirri sem haldin var um stjórnarskrána. Það er ekkert sem tryggir að hún verði virt, ekki neitt. Er þá ekki heiðarlegra að ríkisstjórnin, sem vill ekki ganga í Evrópusambandið, lýsi því hreinlega yfir að hún sé hætt við eða ætli að halda áfram? Hún hefur valkost.

Við þurfum að fá þessi mál upp á yfirborðið hrein og klár í staðinn fyrir að vekja hjá fólki einhverjar falsvonir eins og gert var á síðasta kjörtímabili.