143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var yfirveguð. Það kom skýrt fram hvernig hv. þingmaður lítur á þetta mál.

Við höfum setið saman í þinginu undanfarin fjögur ár og á þeim tímapunkti þegar umsóknin var send af stað. Ég er á þeirri skoðun að þeir stjórnarflokkar sem þá héldu um taumana hafi farið óundirbúnir af stað og hafi ekki verið sammála um hvað ætti að gera sem leiddi málið í þær ógöngur sem það er í. Ef ég væri aðildarsinni, sem ég er ekki, væri ég mjög skúffuð út í það hvernig haldið var á málum enda var á þeim tíma lögð fram tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara ætti af stað.

Nú höfum við látið gera enn eina skýrsluna fyrir Alþingi og við höfum haft það fyrir sið, ég tel að það sé góður siður, að reyna að draga lærdóm af því sem við höfum gert fyrir framtíðina. Þetta mál mun einhvern tíma aftur dúkka upp í sölum þingsins og þá er gott að við höfum dregið lærdóm af fortíðinni.

Er það ekki rétt ályktun hjá mér að við hefðum betur látið umrædda þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram á sínum tíma? Hefðum við ekki átt að fara betur undirbúin af stað þannig að breiðari grundvöllur væri fyrir umsókninni? Og í þriðja lagi: Hefðu stjórnarflokkarnir að minnsta kosti ekki þurft að vera sammála um að sækja skyldi um aðild og fara þá inn?

Ég spyr vegna þess að ég og hv. þingmaður vorum samflutningsmenn á tillögu til þingsályktunar á 138. löggjafarþingi, 2009–2010. Við töldum þá að rétt væri að fela ríkisstjórninni að draga til baka þessa umsókn á þeim forsendum sem ég taldi hér upp. Er það einfaldlega ekki að koma í ljós að það var rétt mat hjá okkur, mér og hv. þingmanni, á þeim tíma?