143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka fyrirspurnina. Við lögðum einmitt fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu sem var hafnað á síðasta þingi. Það hefði verið auðveldara og sterkara — og ég segi þetta ekki til þess að reyna að koma höggi á neinn — í samningsumleitunum ef umboðið hefði verið skýrara. Umboðið var ekki skýrt. Það var eiginlega dálítið óþægilegt á þeim fjöldamörgu fundum sem við áttum með ráðamönnum sem hér komu til að sýna okkur stuðning að þar kom aldrei fram á fundunum fyrr en ég nefndi það að bara annar stjórnarflokkurinn var hlynntur því að ganga inn og að hinn flokkurinn hefði ákveðið að hluta til að fara í þetta ferli og greiða því atkvæði sitt út frá því að við mundum sjá samning en ekki út frá því að neinn í þeim flokki hefði áhuga á að ganga í sambandið.

Mér fannst þetta mjög ruglandi ferli allt saman í upphafi. Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég sé hlynnt því að ganga í þetta bandalag eða ekki. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki allar forsendur til þess og til þess að hafa þær, eins og mjög margir segja, þarf maður að klára ferlið. Ég er sannfærð um að ef það hefði verið farið í þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem við lögðum til á sínum tíma væri þetta ferli öðruvísi og til þess mun sterkara umboð. En það var ekki vilji fyrir því þá og ég held að það sé ekkert frekar vilji fyrir því í dag.

Þetta er mál sem er í raun og veru óþroskað. Það er hollt að tala um það en út úr því skotgrafatali sem er um það núna kemur voðalega lítið annað en einhver stóryrði. Mér finnst það ekki þjóna tilganginum. Ég vil frekar „fakta“ og mundi vilja heyra meira frá þeim sem eru hlynntir málinu um hvað er gott við það og þeim sem eru gegn því hvað er vont við það.