143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræðuskýrslu við Evrópusambandið. Eins og menn vita var samið um það í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka að gera skyldi úttekt sem lögð yrði fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni varðandi aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Ég fagna því að skýrslan er komin. Hún dregur fram staðreyndir málsins, bakgrunn þess og stöðuna og það er vel. Hún leiðir í ljós að þær staðreyndir sem við höfum haldið á lofti sem höfum barist gegn þessari aðildarumsókn. Ég hef sjálf lagt fram tillögu í þinginu um að umsóknin skyldi dregin til baka og skýrslan sýnir að málflutningur okkar hefur átt við rök að styðjast.

Fram kemur í skýrslunni að almennt er gengið út frá því að umsóknarríkið sækist eftir aðild. Því hefur verið mótmælt af þeim sem borið hafa uppi þessa umsókn allt síðasta kjörtímabil. Það er staðreynd að ef þjóð sækir um aðild að Evrópusambandinu er það vegna þess að umsóknarríkið hefur áhuga á að ganga í sambandið. Það stendur svart á hvítu í þessari skýrslu þó að annað hafi verið sagt í þessum ræðustól oftar en ég get talið.

Jafnframt kemur fram í skýrslunni að reynsla annarra þjóða sýni að ekki hafa fengist varanlegar undanþágur frá sameiginlegri stefnu Evrópusambandsins. Um það er ítarlega fjallað á bls. 62 og áfram í skýrslunni og verður það meginmál ræðu minnar, en það er það atriði sem mest hefur verið talað um í málinu, þ.e. hvaða undanþága verði í boði fyrir Ísland. Það var fullyrt hér þegar við tókum málið um aðildarumsókn til meðferðar að við fengjum alveg örugglega undanþágur, við værum bara að fara að kíkja í pakkann, sem er auðvitað andstætt því sem aðrar þjóðir hafa gert og Evrópusambandið sjálft trúir að þjóðir séu að gera sem sækja um aðild. Jafnframt var fullyrt að þetta mundi taka stuttan tíma, jafnvel bara 18 mánuði. Ekkert af þessu stóðst og er hægt að lesa um ástæður þess í skýrslunni.

Í stuttu máli sagt er það mín skoðun að þetta var illa undirbúinn leiðangur af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka. Ég hef margoft sagt að væri ég aðildarsinni, væri ég þeirrar skoðunar að við ættum erindi í Evrópusambandið, þá væri ég ansi svekkt út í fyrrverandi ráðamenn þessarar þjóðar vegna þess með hvaða hætti haldið var á málinu. Farið var af stað án þess að ríkisstjórnin væri sátt við að sækja um aðild og ganga í sambandið. Það var sem sagt farið gegn því meginatriði sem allir þekkja, að maður sækir ekki um nema maður viljir fara inn. Eins voru menn ekki með það á hreinu hvernig þeir ætluðu að halda utan um hlutina. Á þessum tíma fóru menn að vísa í það að þeir sem sætu í ríkisstjórn bæru svo sem ekki ábyrgð á þessu máli heldur væri það þingið. En umsögnin fór í gegnum þingið og var það að undirlagi ríkisstjórnarinnar. Þess vegna var það afskaplega furðulegt þegar hægt fór að ganga og illa að ábyrgðinni skyldi alltaf vísað á þingið og þarf sérstaklega að skoða þær röksemdir allar.

Herra forseti. Ég ætla að gera að meginumræðuefni þá möguleika sem Ísland átti og á á því að fá undanþágur frá stefnu Evrópusambandsins. Fram kemur í skýrslunni að sambandið setji alltaf fram þá meginstefnu þegar það á í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki gangi að öllu regluverki Evrópusambandsins óbreyttu. Það er meginreglan. Það á ekki að koma okkur neitt á óvart vegna þess að öll aðildarríkin eiga samkvæmt hugmyndafræði Evrópusambandsins að sitja við sama borð, eðlilega. Um það snýst Evrópusambandið; sameiginlegar reglur. Leikreglurnar eiga að vera skýrar og þær sömu eiga að gilda fyrir allar aðildarþjóðirnar þannig að það á ekki að koma okkur á óvart. En sérstaklega á það við um málaflokka þar sem tekin hefur verið upp sameiginleg stefna og sambandið fer að verulegu leyti eitt með vald, eins og t.d. í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, þannig að það eru sérstaklega rík sjónarmið varðandi þessi tvö málefni. Það eru þeir málaflokkar sem varða okkur Íslendinga mestu, sem ósamið er um þar sem fyrrverandi ríkisstjórn náði ekki að leggja fram samningsafstöðu Íslands. Það hefur allt saman legið fyrir frá því að við lögðum af stað í þennan leiðangur á ábyrgð síðustu ríkisstjórnar. Það hefur legið fyrir allan tímann.

En það er mjög athyglivert að lesa ekki bara þessar blaðsíður í skýrslunni sjálfri heldur einnig viðauka III, sem skrifaður er af Stefáni Má Stefánssyni, og fara yfir hvaða möguleikar ný aðildarríki hafa haft í gegnum tíðina á sérlausnum, eins og fyrrverandi stjórnarmeirihluti kýs að orða það núna, hann kallar það sérlausnir (Gripið fram í.) í staðinn fyrir undanþágur. Við skulum fara aðeins yfir þann kafla.

Með Lissabon-sáttmálanum varð sú breyting að landbúnaður og fiskveiðar fóru inn í sama kafla sem áður hét aðeins Landbúnaður. Miðað við þá stefnubreytingu — hér er um að ræða áherslubreytingu að mati prófessorsins — þá er þetta sameiginleg stefna í þessum málaflokkum sem þýðir að afstaða sambandsins til þessara tveggja málaflokka hlýtur að vera svipuð eða eins. Við þurfum því að hafa það í huga í allri þessari umræðu.

Jafnframt kemur fram að ef undanþágur koma til sé nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um þær. Þá er möguleikum á því að fá undanþágur skipt í fjóra flokka: Varanlegar undanþágur, tímabundnar undanþágur, breytingar á reglum ESB fyrir einstaka aðildarríki og síðan sérreglur fyrir tiltekin ákvæði.

Ef við kíkjum fyrst á varanlegar undanþágur er það ljóst miðað við efni skýrslunnar að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undanþágur að ræða á þessum tveim sviðum, hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála.

Eigum við ekki að kíkja á hverjir hafa reynt að fá varanlegar undanþágur? Jú, frændur okkar og nágrannar, Norðmenn, kröfðust þess að fá undanþágur fyrir ákveðin hafsvæði þegar þeir áttu í samningum við Evrópubandalagið árið 1994. Kröfurnar fólust í því að þeir fengju að stjórna sínum hafsvæðum fyrir norðan 62° norðlægrar breiddar og rökin voru þau að sjávarafurðir væru mikilvæg útflutningsvara og sjávarútvegur hefði afgerandi þýðingu fyrir búsetu og atvinnustarfsemi á þessum svæðum í Noregi. Hver var afstaða Evrópusambandsins til þessa? Hvað sagði Evrópusambandið við þessu? Jú, þeir viðurkenndu þessi sjónarmið, að þetta væri mikilvægt en urðu engu að síður ekki við því að heimila Norðmönnum að fá varanlegar undanþágur. Niðurstaðan var sú að Norðmenn fengu í engum greinum varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins. Það kemur fram í umfjölluninni um varanlegar undanþágur. En það var viðurkennt að þessi sjónarmið væru lögmæt, svo það komi fram vegna þess að hér var sagt í gær að Evrópusambandið liti allt öðruvísi á Noreg en okkur, þetta væru ekki sambærileg dæmi af því að Noregur ætti svo mikið af olíu. Það er rangt. Það kemur fram að þetta var samþykkt, þessi sjónarmið voru viðurkennd af hálfu Evrópusambandsins. Engu að síður voru engar undanþágur.

Þá skulum við aðeins líta á það hvort möguleiki hafi verið á því að fá tímabundnar undanþágur. Það hefur verið gert. Það eru til tilvik þar sem tímabundnar undanþágur hafa verið veittar, hægt er að lesa um það í skýrslunni. En t.d. þegar Finnland, Svíþjóð, Austurríki og Noregur voru að semja við Evrópusambandið 1994 var gerð grein fyrir ýmsum aðlögunaraðgerðum. Rökin voru þau að þar sem alvarlegir erfiðleikar steðjuðu að væri heimilt að veita undanþágur til að auðvelda þjóðunum aðlögun að hinni sameiginlegu stefnu. Það er tímabundin undanþága til að fá fólk til að segja já við því að ganga í Evrópusambandið. En þegar aðlögunartímanum er lokið þá gengur ríki í ESB eins og ESB er. Um það snúast tímabundnar undanþágur. Ég held að við Íslendingar hljótum öll að vera sammála um að það sé ekki í samræmi við íslenska hagsmuni að semja um tímabundnar undanþágur og ganga síðan að fullu að sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eða landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, það er a.m.k. mín skoðun.

Þá tökum við til við að skoða þriðja flokkinn á möguleikum á því að fá einhverjar sérlausnir. Það er breyting á reglum ESB í þágu einstakra aðildarríkja. Gott og vel, kíkjum aðeins á það.

Hér er talað um það dæmi þegar Noregi, Finnlandi og Svíþjóð var heimilt að veita langtímainnanlandsstuðning með það að markmiði að tryggja að landbúnaður yrði áfram stundaður á þeim svæðum sem væru norðan við 62. breiddargráðu. Ókei. Hér var gripið til þess að útfæra ESB-réttinn sérstaklega með tilliti til þeirra sjónarmiða. Taka skal fram að Evrópusambandið ákveður öll skilyrði fyrir þessum stuðningi og getur hann eftir einhvern tíma fallið í burtu að fullu að breyttri stefnu og breyttri löggjöf sambandsins. Það er fullkomlega ljóst. Ég veit að sumir hafa vísað í þetta dæmi í umræðunni, að það eigi að sannfæra okkur um að auðvitað mundum við fá fullar undanþágur og að tekið yrði tillit til sjónarmiða okkar varðandi sjávarútveginn á grundvelli þessa fordæmis. En eru þetta sambærileg mál? Er það að veita ívilnanir eða sérstaka útfærslu á ESB-rétti til að halda ákveðnum svæðum í byggð í landbúnaði í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð sambærilegt við það að Ísland rekur hér öflugan sjávarútveg án ríkisstyrkja og veiðir úr fiskstofnum sem aðrar Evrópuþjóðir hafa mikinn áhuga á að komast í? Eru þetta sambærileg dæmi? Að mínu viti eru þessi tvö dæmi ekki sambærileg þannig að ég tel að þetta sé ekki málflutningur sem nái a.m.k. að sannfæra þjóðina um að hægt verði að verða við þessu. Ef svo væri, hvers vegna var það þá ekki gert á síðasta kjörtímabili? Þegar ríkisstjórnarflokkarnir komu hingað og reyndu að sannfæra þjóðina um að rétt væri að sækja um aðild sögðu þeir að það mundi taka stuttan tíma. Það væri ljóst að vilji væri hjá Evrópusambandinu til að koma til móts við sjónarmið Íslendinga varðandi sjávarútveginn. Hvers vegna dugði þá ekki allur sá tími sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði? Hvers vegna ekki? Við þurfum að fá svör við því.

Ég hef fengið þau svör frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar að það hafi verið út af makrílnum. Hvenær kom makríllinn inn í íslenska lögsögu? Var það innan þeirra 18 mánaða sem ríkisstjórnin ætlaði sér til að ná að landa samningum og klára þessi mál við Evrópusambandið?

Síðan sjáum við líka hvernig Evrópusambandið hefur hagað sér í því máli öllu gagnvart okkar ágætu nágrönnum, Færeyingum og Grænlendingum og ég tel að ekki sé hægt að líta svo á að það að Ísland hafi á seinni hluta kjörtímabilsins staðið í samningaviðræðum og deilum við Evrópusambandið út af veiðum á makríl hafi átt að trufla ríkisstjórnina í því að tala um sjávarútvegsstefnuna rétt eftir að umsóknin fór út. Ég skil ekki það sjónarmið.

Annað dæmi um breytingar á reglum ESB í þágu einstakra ríkja varðar Möltu. Malta fékk sérstaka útfærslu á ESB-rétti fyrir sig. Malta má veiða að ég held 1.500 tonn á smábátum í lögsögu sinni. Er það sambærilegt við íslenska stórveldið í sjávarútvegi? Ég spyr. Hvað er líkt með þessu dæmi og íslenskum sjávarútvegi? Eru þetta ekki bara nokkrir túrar á stórum íslenskum togara? Eru þetta sambærileg dæmi? Ég get ekki séð að hægt sé að líkja þessum dæmum saman. Auk þess getur sambandið mjög auðveldlega breytt þessum gerðum síðar á grundvelli þeirra reglna um málsmeðferð sem gilda um Evrópusambandið.

Í fjórða og síðasta lagi er hér talað um sérstakar sérreglur fyrir tiltekin svæði. Hér er fjallað um Kanaríeyjar og aðrar eyjar sem tilheyra Spáni. Ég veit að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson vísaði stundum í þetta dæmi, mig minnir að ég hafi lesið það í bókinni hans um jólin. En varðandi Kanaríeyjar, af því að tími minn er þrotinn, þá hefur þeim reglum nú verið breytt þannig að hafsvæðin umhverfis Kanaríeyjar falla alfarið undir fiskveiðistefnu sambandsins og þessi sérregla fyrir þetta tiltekna svæði heldur því ekki. (Forseti hringir.) Hún er ekki lengur til staðar. Ég tel rétt, herra forseti, og er enn á þeirri skoðun að við eigum að draga (Forseti hringir.) umsóknina um aðild Íslands að Evrópusambandinu til baka.