143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi nokkru sinni vísað í Kanaríeyjar, það hef ég aldrei gert, ekki í bók minni heldur. Hún spyr um makríl. Já, makríll var kominn inn í lögsöguna 2010. Undir lok þess árs greindi ég, í svari við núverandi hæstv. forseta, frá þeim ugg mínum að makríll gæti sett möl í gangvirkið og síðan voru endurteknar umræður um það hér allar götur til apríl 2013.

Hinn fræðilegi grunnur þessarar aðildarumsóknar er skýrsla sem Björn Bjarnason ritstýrði, skýrsla nefndar sem ég sat í. Þar er fjallað um sérlausnir. Þar er bókstaflega á það bent að sérlausnir séu leiðin sem Evrópusambandið noti til að klæðskerasníða lausnir á sérstökum vandamálum. Þar er sérstaklega fjallað um það í tilefni af sjávarútvegsmálunum. Af hverju er bent á sérlausnir þar og af hverju fer Evrópusambandið þá leið? Það er vegna þess að þær taka fyrst og fremst til sértækra vandamála og skapa ekki fordæmi varðandi breytingar á regluverki eða gagnvart öðrum þjóðum. Varðandi til dæmis finnska heimskautalandbúnaðinn er rétt hjá hv. þingmanni að sérlausnin er ekki tímasett.

Sérlausnir eru tvenns konar, tímasettar og ótímasettar. Í því tilviki sem þær eru ekki tímasettar er almennt gert ráð fyrir því að þær vari svo lengi sem það ástand er við lýði sem þær eiga að svara. Ef við settum fram, eins og við gerum, kröfu um séríslenskt fiskveiðistjórnarsvæði í krafti þess að sjávarútvegur er svo mikilvægur á Íslandi felur krafan í sér að sú sérlausn ríki á meðan það ástand er við lýði. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er mjög líklegt að sjávarútvegur verði brýnt hagsmunamál fyrir Íslendinga um aldir alda. Hv. þingmaður getur svo velt því fyrir sér á koddanum í kvöld hvort þúsund ár eru nægilega langur tími fyrir sérlausn.