143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt athyglisvert við þessa umræðu, þar á meðal hefur það ekki farið fram hjá neinum að talsmenn stjórnarflokkanna hér hafa eytt mikilli orku í að reyna að sannfæra okkur og aðra sem á hlýða um að það séu engar varanlegar undanþágur eða sérlausnir í boði sem neinu máli skipti, það sé misskilningur. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fór hér mikið yfir það.

Þá veltir maður upp spurningunni: Ef það er svo, ef sannfæring manna er algerlega óbiluð í þessum efnum, hæstvirts utanríkisráðherra, hv. þingmanns, að við munum engar þær sérlausnir fá frá Evrópusambandinu, varanlegar og handfastar, t.d. í sjávarútvegsmálum, sem neinu máli skipti, hvað er þá að óttast frá sjónarhóli þeirra sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið?

Er þá ekki best að fá það á hreint að það sé þannig ef menn trúa því? Málið er þá væntanlega sjálfafgreitt, eða dettur einhverjum það í hug að Ísland gengi einhvern tímann í Evrópusambandið ef það þýddi fullt afsal á forræði okkar yfir fiskimiðunum, afsal samningsforsvars, að galopna fyrir fjárfestingar inn í íslenskan sjávarútveg? Við hvað eru menn hræddir? Ef menn trúa því virkilega sem menn eru að segja hér, að við munum engar svona lausnir fá, það sé bara allt einhver misskilningur, er þá ekki bara ágætt að fá það endanlega á hreint og þar með væri málið afgreitt? Þá hætta menn að tala um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

Mér finnst vera hroðaleg mótsögn í annars vegar þessum málflutningi talsmanna stjórnarflokkanna og allir þeirri orku sem þeir eyða í þetta, að tala það allt saman niður sem annars staðar hefur verið af þessu tagi og draga úr því á allan hátt að Ísland muni fá nokkra þá úrlausn mála varðandi sjávarútveg að það sé ásættanlegt. Er þá ekki bara ágætt að fá það á hreint og þar með væri málið afgreitt? Kannski fengjum við bara frið fyrir þessari Evrópuumræðu í 20 ár.