143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er einfaldlega bara ekki fylgjandi þeirri hugmyndafræði að sækja um aðild að sambandi sem ég vil ekki ganga inn í. Ef það var planið hjá Vinstri grænum að klára aðildarviðræðurnar til að fá frið fyrir Evrópusambandsumræðunni í 20 ár er ég ekki sammála aðferðafræðinni. Ég er einfaldlega á þeirri skoðun að maður eigi ekki að vera að sækja um aðild að tilhæfulausu, það eigi ekki að sækja um nema þingmeirihluti sé fyrir því að ganga inn, eins og allar aðrar þjóðir hafa gert, með því hugarfari. Það hefur engin önnur þjóð að mínu viti farið í leiðangur til Brussel til að klára samningsviðræður og ætla síðan bara að kíkja í pakkann. Ég hef ekki heyrt að það hafi tíðkast nokkurs staðar annars staðar í Evrópu nema hér. Það var einfaldlega einhver hugmynd sem var búin til til að friða, ég mundi halda vinstri græna í síðustu ríkisstjórn, um að hægt væri að gera þetta svona. Ég er ósammála þeirri hugmyndafræði og þess vegna gæti ég ekki haldið áfram að vinna að henni. Ég tel að umræðan um undanþágurnar hafi verið svo ríkjandi sjónarmið í málflutningi þeirra sem héldu því fram að við ættum að sækja um á síðasta kjörtímabili að það verði að fara yfir þau rök. Þess vegna eyddi ég mínum tíma í að fara yfir það sérstaklega.

Málið er hins vegar miklu stærra, ég átta mig á því. Það eru miklu fleiri atriði sem þurfa að koma til skoðunar, svo sem lýðræðismálin og aðrar auðlindir en sjávarútvegur. Ég talaði afskaplega lítið um landbúnaðarhlutann en maður fær bara 15 mínútur þannig að maður verður að einbeita sér að einhverju og ég fór yfir þetta vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar klifuðu sífellt á því að það yrði auðvelt fyrir okkur að fá sérlausnir og undanþágur. Hvers vegna var þá ekki klárað að semja ef þetta var svona auðvelt? Hver ber ábyrgð á því að því var klúðrað?