143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[11:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekkert farið fram hjá okkur að stjórnarliðar dvelja mikið í fortíðinni en við fáum fá svör um framhaldið. Það hefur líka einkennt þessa umræðu að einhver vandræðagangur er á því að gefa skýr svör um það af hálfu stjórnarflokkanna hvað þeir hyggist taka til við nú í framhaldinu af málinu.

Varðandi það að engar þjóðir hafi sótt um nema þær blóðlangi allar að ganga í Evrópusambandið er það ósköp einfaldlega sögulega rangt. Það var til dæmis þannig þegar sum nýju aðildarríkin ræddu um aðild að á löngum tímabilum var meiri hluti í skoðanakönnunum meðal þeirra þjóða andvígur því. (Gripið fram í: En ríkisstjórnin?) Það var allur gangur á því. Hvernig var þetta í Noregi? Var ekki klofin minnihlutastjórn sem stýrði viðræðum Noregs um aðild að Evrópusambandinu? Verkamannaflokkurinn í minnihlutastjórn og það var sterkur skipulagður andstöðuvængur innan flokksins með fulltrúum uppi í æðstu forustu hans. Samt fóru menn í viðræður og kláruðu. Það hefur væntanlega verið áhugi á því í Noregi að fá á hreint hvort einhverjar þær lausnir fengjust til dæmis fyrir norskan sjávarútveg sem menn teldu ásættanlegar.

Niðurstaða samninganna var rýr, það er rétt, og þjóðin felldi samninginn. Það er það sem ég er að lýsa inn í hér, mótsagnirnar í málflutningi þeirra sem eru óskaplega sannfærðir um (Forseti hringir.) að það verði engar brúklegar sérlausnir í boði en vilja samt ekki fá það á hreint.