143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður heldur því fram að varanlegar undanþágur séu ekki til. Nú tek ég alveg skýrt fram að ég hef aldrei sóst eftir varanlegum undanþágum fyrir Íslands hönd. En hv. þingmaður ætti að lesa skýrsluna sem hann er búinn að halda heimastílinn sinn um. Hann hlýtur að hafa skrifað hann á grundvelli einhverrar rannsóknar á skýrslunni. Þar sér hann dæmi í hinum ágæta viðauka frá Stefáni Má Stefánssyni prófessor þar sem hann rekur dæmi um varanlegar undanþágur. Þær eru að vísu mjög fáar en það skiptir ekki máli, ég nota það bara sem dæmi vegna þess að í andsvari sínu hélt hv. þingmaður öðru fram og það er tóm vitleysa. Það skiptir mig ekki máli vegna þess að ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að Ísland ætti að sækja um varanlega undanþágu.

Ég hef alltaf fylgt þeirri lausn sem fyrst var varpað fram af formanni Framsóknarflokksins, sem þá var utanríkisráðherra, sem varð síðan sú leið sem í undirbúningi að aðildarumsókninni var unnin af nefnd undir forustu Björns Bjarnasonar skipaðri af Davíð Oddssyni, þar sem ég átti sæti, hæstv. núverandi forseti, Einar K. Guðfinnsson, og formaður VG, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir. Þar var þessi niðurstaða rakin sérstaklega og þar kom fram að hún væri hugsuð af hálfu Evrópusambandsins til að klæðskerasníða sérstakar lausnir sem bundnar væru við ákveðin lönd. Tekið var fram í þeirri umræðu að þetta væri leiðin vegna þess að hún svaraði aðstæðum sem kannski væru bara til í einu landi og byggi ekki til fordæmi.

Þetta var grunnurinn að þessari aðferð. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að koma svo hingað ólesinn og halda ræðu um skýrslu sem hann hefur bersýnilega ekki eytt tíma sínum í að lesa. Þetta hefur verið málefnaleg umræða að öðru leyti en því. Þetta er fyrsta ræðan sem hægt er að fara svona hörðum orðum um. En það er stundum betra að menn lesi áður en þeir halda ræður um efni sem þeir eru að fjalla um og stundum betra að menn hugsi ekki upphátt.