143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður byrjaði í ræðu sinni á því að gefa einkunnir út af ræðuhöldum annarra þá verð ég að segja að hv. þingmaður nýtti fyrri hluta ræðu sinnar kannski ekkert sérstaklega vel, en þó voru ýmsir punktar í síðari hlutanum sem hlutu að vekja athygli.

Svo að ég takmarki mig við þann punkt sem hv. þingmaður endaði á, þar sem hann var að ræða um sérlausnir, þá liðu þrjú ár frá því að eiginlegt ferli hófst, reyndar sótt um nokkuð fyrr, þrjú ár frá því að viðræður voru hafnar og þar til þær voru settar í hægagang eða á ís, a.m.k. hvað tiltekna kafla varðaði, í ársbyrjun 2013. Á þeim tíma virðist af gögnum málsins, m.a. því sem lesa má um í þessari skýrslu og reyndar af öðrum upplýsingum, að lítið hafi gerst í þeim tveimur málaflokkum sem fyrirséð var að yrðu hvað erfiðastir, í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Öllum er ljóst að ákveðin undirbúningsvinna átti sér stað af hálfu samningahópa og samninganefndar Íslendinga en menn komust þó aldrei á það stig að rýniskýrslur væru lagðar fram, hvað þá opnunarviðmið sem vænta mátti í sjávarútvegsmálunum. Það kom fram í landbúnaðarmálunum en í sjávarútvegsmálunum komu aldrei fram opnunarviðmið sem ráða má af þeim mismun sem er á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og fyrirkomulagi sjávarútvegsmála á Íslandi að gætu komið fram.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður getur í stuttu máli lýst því hvers vegna svo lítið gerðist í þessum málaflokkum sem allan tímann var fyrirséð að yrðu erfiðastir, og hvort hann hefði ekki talið, eins og menn ræddu reyndar (Forseti hringir.) í upphafi viðræðnanna, að ástæða væri til (Forseti hringir.) að flýta sérstaklega þeim málum til að fá á hreint hvað væri í boði, ef svo má segja, og hvað ekki.