143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var mín áhersla og okkar flestra í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði allan tímann að við óskuðum eftir því að einmitt erfiðu köflunum yrði hraðað eins og hægt væri, það liggur algjörlega fyrir. Í heimsóknum til Brussel lagði ég meira að segja sérstaka áherslu á það við þá að við værum orðin mjög óánægð með hvað það hefði dregist.

Það eru tvenns konar orsakir aðallega að baki, eins og ég kann það best, varðandi annars vegar sjávarútveg og hins vegar landbúnað og það svið. Varðandi sjávarútveginn var af Íslands hálfu tiltölulega auðvelt að undirbyggja og leggja fram samningsafstöðu, það held ég að sé nokkuð ljóst. Við erum með það nokkuð á hreinu eftir hverju við erum á höttum þar, að fá íslenska fiskveiðistjórnarsvæðið viðurkennt sem sérstakt svæði, að hafa þar forræði á hlutunum og viðhalda fjárfestingartakmörkunum og eins miklu forræði og forsvari í alþjóðasamskiptum og samningum og við getum.

Það dróst hins vegar fyrst og fremst vegna þess að Evrópusambandið dró það mál, það liggur algjörlega fyrir. Makríll, sem reyndar kom hingað inn í lögsöguna og fór að ganga hingað 2006 eða 2007, en ekki 2010, eins og einhverjir héldu áðan — við settum okkur einhliða hámark á makrílveiðar 2009 og upp úr því fer að harðna í makríldeilunni. Og það liggur alveg ljóst fyrir að drög að rýniskýrslu Evrópusambandsins voru búin að liggja ofan í skúffu þar í talsvert á annað ár þegar hlé er gert upp úr áramótunum 2012–2013. Það veit ég. Það er erfitt að áætla annað en að þar hafi meðal annars makríldeilan, og kannski sérstaklega hún, spilað inn í.

Varðandi landbúnaðinn og heilbrigði og hollustu dýra og matvæla og annað því um líkt þá verður vissulega að viðurkennast að Ísland þurfti dálítinn tíma í að undirbyggja nógu rækilega séróskir sínar þar. Það vantaði til dæmis upp á fræðilegan rökstuðning varðandi hættuna af smitsjúkdómum og öðru slíku (Forseti hringir.) til þess að við gætum undirbyggt með eins sterkum hætti og mögulegt er kröfu okkar um að þurfa ekki (Forseti hringir.) að leyfa innflutning á lifandi dýrum, hráum matvælum o.s.frv.