143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi takmarkaðs tíma ætla ég að takmarka mig við sjávarútvegsmálin og velta þessu upp: Nú liggur fyrir, eins og hv. þingmaður nefndi, að í áliti utanríkismálanefndar frá 2009 voru lagðar ákveðnar meginlínur um samningsafstöðu Íslands, getum við kallað það, hvað varðar sjávarútvegsmálin. Þar voru nefnd atriði sem sett voru fram sem grundvallaratriði og væntanlega hefði samningsafstaða Íslendinga, ef hún hefði verið lögð fram, verið byggð á þeim grunni.

Hv. þingmaður hafði töluverða aðkomu að þessum málum á síðasta kjörtímabili, á þeim þremur árum sem aktífar viðræður áttu sér stað, bæði sem fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra og eins sem meðlimur í ráðherranefnd um Evrópumál. Þær kröfur sem að sönnu koma fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá 2009 eru að mörgu leyti, eins og rakið er í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og hefur oft komið fram áður, í töluverðu ósamræmi við regluverk Evrópusambandsins. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort menn hafi á þeim tíma séð eitthvað sem benti til þess að möguleikar væru á því að Evrópusambandið bakkaði frá grundvallarreglum sínum í þessum málaflokki til að veita Íslendingum þá sjálfsstjórn sinna mála á þessu sviði sem vissulega er gerð krafa um í nefndaráliti utanríkismálanefndar sem unnið var eftir.