143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að bera fram eina spurningu og hafa aðdraganda að.

Áður en sótt var um aðild í aðdraganda þeirra alþingiskosninga sem þá voru og á kjörtímabilinu þar á undan var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mjög afgerandi þegar kom að Evrópusambandsmálum. Hann sagði meðal annars í þingsal að menn ættu ekki að sækja um aðild nema þeir vildu ganga í Evrópusambandið. Í aðdraganda þeirra kosninga og kvöldið fyrir þann kjördag var hv. þingmaður, þáverandi formaður Vinstri grænna, inntur eftir því hvort sótt yrði um aðild ef flokkur hans færi í ríkisstjórn. Hv. þingmaður sagði þá að það yrði ekki gert á hans vakt.

Eftir þær kosningar ákvað hv. þingmaður og fleiri að samþykkja það að sækja um aðild að Evrópusambandinu án þess að þjóðin væri nokkuð spurð að því. Sumir hafa lýst þessu sem pólitískum hrossakaupum, hv. þm. Össur Skarphéðinsson lætur meðal annars að því liggja í bók sinni.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann talar svona í kringum það og var að viðra ýmsar leiðir og lausnir, hvernig hann sjái fyrir sér þá stefnu sem þetta mál taki. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar, eins og hann var á sínum tíma, að Íslandi eigi ekki að vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið ef menn vilji ekki ganga þar inn? Eigum við að halda aðildarviðræðum áfram eða eigum við ekki að gera það? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar sem hann var, að ekki ætti að sækja um aðild nema menn vildu ganga inn, eða er hann enn þeirrar skoðunar að halda eigi þessu ferli áfram og ekki draga umsóknina til baka? Ég hefði viljað fá skýrt svar um það því að miklar breytingar urðu frá kvöldinu fyrir kjördag í umræddum kosningum fram að kvöldinu eftir kjördag.