143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er á mælendaskrá og mun halda ræðu síðar í umræðunni. Þá gefst hv. þingmanni færi á að spyrja spurninga. Það er ekki óeðlilegt að menn spyrji vegna þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í sjónvarpsviðtali fyrir umræddar kosningar að ekki yrði sótt um aðild á hans vakt, og var mjög afdráttarlaus í því. Menn geta flett því upp hjá Ríkisútvarpinu.

Nú heyrist mér sem fyrr, og það er mjög sérstakt, að hv. þingmaður beri kápuna á báðum öxlum. Sýnt hefur verið fram á það í skýrslunni og komið er inn á það að menn sækja ekki um aðild nema vilja ganga í Evrópusambandið, nema vilji liggi þar að baki, rétt eins og hv. þingmaður sagði alltaf á sínum tíma og hélt hér frægar þingræður um að menn sæktu ekki um aðild að Evrópusambandinu nema vilja ganga þar inn.

Því er ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér og spyrji hvers vegna ekki sé hægt að tala skýrt í þessu máli. Af hverju eiga menn að vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið þegar þeir vilja ekki ganga þar inn? Þar vitna ég hreinlega til orða hv. þingmanns sjálfs, orða sem ég horfði mikið til og var algjörlega sammála þegar hann lét þau falla á sínum tíma, og ítrekað, bæði í þessum ræðustól og á fundum víðs vegar um landið, að menn væru ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu nema þeir vildu ganga þar inn.

Virðulegi forseti. Það er engu líkara en einhvers konar pólitísk hrossakaup eða annað slíkt hafi valdið þessu eða þá að menn fari með grundvallarmál eins og sjálfstæði þjóðarinnar inn í pólitískt spilavíti. Það er mjög alvarlegt og það hryggir mig mjög að hv. þingmaður (Forseti hringir.) sem var svo staðfastur í þessu máli á sínum tíma (Forseti hringir.) sé ekki kominn til baka. Ég kalla eftir þeirri staðfestu sem eitt sinn var fyrir hendi.