143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[13:33]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu um Evrópusambandið og umsókn Íslands að því, skýrslu sem var kallað eftir í kjölfar málefnasamnings ríkisstjórnarinnar þar sem ákveðið var að setja viðræður Íslands við Evrópusambandið á ís og kalla eftir upplýsingum um stöðuna.

Hér er skýrslan komin. Eins og aðrir þingmenn í umræðunni fagna ég auðvitað skýrslunni. Það verður að segjast eins og er að í skýrslunni er staðan tekin ágætlega saman en ekki endilega miklu bætt við það sem hefur komið fram annars staðar og við vitum. Staðan á viðræðum Íslands við Evrópusambandið er skiljanlega óbreytt frá því að virkri vinnu við umsóknina og samningaviðræðurnar var hætt í upphafi síðasta árs. Sú staða er ágætlega tekin saman í skýrslunni. Þar kemur fram að búið er að opna mjög marga af þeim rúmlega 30 köflum sem liggja undir í aðildarviðræðunum og leggja fram samningsmarkmið annars staðar, loka sumum köflum. Við höfum vitað í rúmt ár að það eru fyrst og fremst kaflarnir um landbúnað og sjávarútveg sem bíða vinnunnar og eins og kemur fram í skýrslunni, og kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar í gær, hillir nú undir að Evrópusambandið hafi að mörgu leyti nikkað til hagsmuna Íslands og afstöðu Íslands í landbúnaðarmálum.

Að því leyti til er skýrslan ágætisáminning um stöðuna og áminning um að við erum enn þá á þeim stað að hafa ekki fengið endanleg svör um hvernig aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi endanlega líta út. Það er í raun enn óljóst hvernig farið yrði með sjávarútveginn á Íslandi. Það eru margir ágætir punktar sem eru teknir til í skýrslunni, og eru svo sem ekki nýjar fréttir heldur, um það að hvaða leyti íslenski sjávarútvegurinn er sérstakur í evrópsku samhengi, bæði út frá stofnunum sem við veiðum úr, okkar sögu sem sjávarútvegsþjóðar og auðvitað mikilvægi sjávarútvegsins í íslenskum efnahag.

Það sem þessi skýrsla svarar mér ekki og er dálítið athyglisvert að skuli ekki vera í henni er að þar er engin tilraun gerð til að leggja mat á af hverju Ísland ætti að gerast hluti af Evrópusambandinu eða af hverju það ætti ekki að gera það. Hvaða áhrif mundi aðild eða ef svo bæri undir ekki aðild hafa á Ísland og íslenskan efnahag í dag og til framtíðar?

Við vitum öll að það er mjög erfitt að gerast mikill Nostradamus þó að við gerum stundum tilraunir til þess úr þessum ræðustól. Það að horfa marga áratugi eða aldir fram í tímann er tiltölulega fánýt iðja þótt skemmtileg sé. Það sem við vitum og hefur ekki breyst í gegnum aldirnar er að Ísland er tiltölulega lítið land. Ísland er land í miðju Atlantshafi og er hluti af Evrópu. Íslendingar eru í dag rúmlega 300 þúsund, íbúar Evrópu eru um 500 milljónir og eins og hefur verið frá því að land byggðist hér eru örlög lands okkar, þjóðar okkar, algjörlega samofin örlögum stóra nágranna okkar, Evrópu.

Þegar við rýnum í Íslandssöguna sjáum við að allt á Íslandi hefur þróast út frá náttúruhamförum, veðri o.s.frv. en fyrst og fremst út frá því sem að gerast í löndunum í kringum okkur. Við höfum tekið menningu, efnahag, kunnáttu o.fl. meira og minna frá öðrum löndum, enda ekki skrýtið þegar um smáþjóð er að ræða.

Við höfum vissulega fundið upp ákveðnar skóflur eða skarað fram úr á heimsvísu á mjög afmörkuðum sviðum, yfirleitt sviðum sem ekki margir aðrir sinna, eins og til dæmis handbolta eða framleiðslu gervilima, en í stóra samhenginu erum við hluti af miklu stærra apparati, pínulítill hluti.

Það eru nokkrir smápunktar sem ég vildi fara í vegna þess að ég er mikill áhugamaður um framtíð Íslands og mikill áhugamaður um framtíð Evrópu og ég held að það séu tveir heimar sem hafa mjög mikil áhrif hvor á annan.

Ísland hefur frá því að landið varð sjálfstætt lagt mjög mikið upp úr því að taka þátt í alþjóðasamstarfi. Við höfum góðu heilli vitað að okkar besta leið, okkar besta leið sem sá dvergur sem við erum, til þess að njóta áhrifa og taka þátt er einmitt að taka þátt og vera hluti af stærri heildum og fá að sitja við borðið. Við tökum þátt í Ólympíuleikum, ekki til þess að setja Íslandsmet heldur einmitt til þess að taka þátt í íþróttakeppni með hinum þjóðunum.

Ísland gerðist stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum. Það er þátttakandi í starfi NATO. Ísland gerir sig nokkuð gildandi á vettvangi Evrópuráðsins. Við höfum verið þátttakendur í Heimsbankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tekið undir og tekið þátt í alþjóðasamningum á mjög virkan hátt. Það sést til dæmis á því að íslenskir samningamenn njóta þvílíkrar virðingar á heimsvísu að það var leitað til þeirra þegar þurfti að stilla saman og ná samningum risaveldanna Rússlands og Bandaríkjanna og annarra þjóða í samningum um GATT.

Eini alþjóðasamningurinn sem ég man eftir í fljótu bragði þar sem Íslendingar hafa ekki talið sér sætt var þegar Ísland sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það var auðvitað gert þar sem Ísland hafði komist í mikinn minni hluta hvalveiðiþjóða og á tímabili þótti okkur ráðlegt að taka ekki þátt í því alþjóðasamstarfi, en þeirri ákvörðun hefur verið snúið við og nú reynum við að taka þátt og koma málefni okkar á framfæri þar.

Umræðan hér er dálítið athyglisverð því að hún er minnst um skýrsluna. Sá þingmaður sem hér stendur sat ekki á þingi á síðasta kjörtímabili og hvað þá á kjörtímabilunum þar á undan þannig að þessi umræða kemur dálítið spánskt fyrir sjónir. Við höfum fengið skýrslu upp á annað hundrað blaðsíður með einum 600 blaðsíðum af ítarefni. Ég verð að viðurkenna að þótt oft sé sagt við mig — fyrirgefðu orðbragðið, frú forseti — að ég sé hraðlæs andskoti hefur mér ekki tekist að lesa skýrsluna alla, hvað þá mjög vandlega núna þegar við erum komin í umræðu um hana. Umræðan um hana gengur alveg ágætlega þrátt fyrir að við ræðum minnst skýrsluna. Menn virðast í umræðunni, bæði hér á þingi og úti í samfélaginu, aðallega vera að ræða það sem þeir vissu fyrir, skoðanir sem þeir höfðu fyrir og grípa í setningu og setningu úr skýrslunni málflutningi sínum til aðstoðar. Mér þykir það dálítið sérstök upplifun.

Umræðan á þingi hefur samt verið mjög gagnleg. Hún hefur að mörgu leyti verið mjög uppbyggileg því að hér hafa hv. þingmenn velt fyrir sér kostum og göllum um aðild Íslands, sem er ánægjulegt. Það sem truflar mig er þó að umræðan er að mjög miklu leyti í Nostradamusar-stíl, þ.e. við veltum fyrir okkur hlutunum út frá óljósum upplýsingum. Við lesum misjafnlega í staðhæfingar í skýrslunni þar sem kemur á mörgum stöðum fram að reglur Evrópusambandsins séu nokkuð stífar, það sé ákveðinn rammi, en samt hafi ákveðnar þjóðir fengið sérlausnir eða undanþágur á sínum málum. Sambandið hefur þróast, bæði af sjálfu sér en líka við það að nýjar þjóðir hafa gengið í það.

Í umræðunni höfum við nokkuð notað þessar upplýsingar eða setningar úr skýrslunni sem réttlætingu á því að Ísland geti fengið sérlausnir eða geti það augljóslega alls ekki.

Eina svarið við þeirri spurningu, sem skýrslan getur skiljanlega ekki svarað, er að við klárum ferlið og náum samningi þar sem kemur í ljós hvað Íslandi býðst. Að því leyti til þykir mér skýrslan ágætisvegvísir, hún segir okkur að við getum ekki vitað framtíðina nema með því að klára samninginn og leggja hann síðan fyrir þjóðina.

Þegar talað er um sérlausnir var sá þingmaður sem hér stendur svo heppinn að hafa í fyrra lífi sínu sem sveitarstjórnarmaður tekið þátt í skoðun á byggðakafla skýrslunnar í samningahópum sveitarstjórnar um byggðamál. Þar fannst mér ég sjá mjög skýr dæmi um það hvernig sambandið hefur þróast og er að þróast. Evrópusambandið er auðvitað ekki litur eða föst stærð heldur einmitt fljótandi samvinnuvettvangur sjálfstæðra þjóða.

Þegar byggðastefnan og reglur í sambandi við byggðasjóði sambandsins voru settar fram var horft á stöðuna eins og hún var, á þau lönd sem voru í Evrópusambandinu þegar reglurnar voru settar. Þá voru ákveðnar reglur settar sem miðuðust við þann raunveruleika. Það var til dæmis tekin ákvörðun um að skilgreina ákveðin svæði sem svæði sem ættu að njóta sérstakrar uppbyggingar, svæði eins og eyjur, fjalllendi, norðurhjari o.s.frv. og reglur sambandsins segja að byggðir sem uppfylli þá „standarda“ megi styrkja sérstaklega.

Þar sem til dæmis Bretland er eyja og Írland voru gerðar á þessu undanþágur þannig að í reglunum var skilgreiningin á eyju sú að hún væri ekki föst við meginlandið, væri ekki lengra frá meginlandinu en, ef ég man rétt, 200 eða 300 kílómetra og að á eyjunni væri ekki höfuðborg.

Seinna þegar Malta og Kýpur sækja um aðild að Evrópusambandinu verður það að vandræðum vegna þess að að sjálfsögðu eru höfuðborgir eyjanna á eyjunni og þau rök að þessar eyjur eigi að meðhöndla og styrkja í byggðalegu samhengi áttu samt við.

Í þeim aðildarsamningum sem þau lönd gerðu við Evrópusambandið varð breyting á reglum Evrópusambandsins þannig að sjálfstæð ríki með höfuðborgir á eyju urðu ekki undanþegin reglunum. Þetta er einn af mörgum punktum sem vöknuðu við (Forseti hringir.) lestur skýrslunnar. Ég hlakka til að taka þátt í umræðunni áfram.