143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru fullkomlega virðingarverð sjónarmið hjá hv. þm. Óttari Proppé. Það er auðvitað til í dæminu að hagsmunamat manna sé á þann veg að ekki þurfi sérlausnir til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þá meina menn það einfaldlega þannig að þeir hagsmunir sem hugsanlega mundu skerðast í sjávarútvegsmálum, hugsanlegur missir á forræði á einstökum sviðum, bæði varðandi yfirstjórn sjávarútvegs á Íslandi, varðandi forræði á samningsumboði vegna deilistofna o.s.frv., skiptir minna máli en eitthvað annað sem menn telja að sé jákvætt við Evrópusambandið. Það er alveg virðingarvert sjónarmið þótt ég sé ekki sammála því.

Varðandi spurninguna hvernig Evrópusambandið er að þróast, sem hv. þingmaður réttilega kom inn á og hlýtur að vera okkur stöðugt umhugsunarefni, hefur Evrópusambandið þróast mjög mikið eins og menn þekkja og er rakið ítarlega á einstökum stöðum í skýrslunni.

Í grundvallaratriðum má lesa þá þróun þannig að Evrópusambandið teygir sig til sífellt fleiri sviða. Evrópusambandið tekur fleiri málaflokka undir sinn hatt. Það sem einu sinni var það sem við getum kallað efnahagsbandalag Evrópu er núna bandalag eða samband á miklu fleiri sviðum. Ég held, það er mitt mat og hv. þingmaður getur haft aðra skoðun á því ef hann vill, ég veit það ekki, að hinn þungi straumur þróunarinnar innan Evrópusambandsins sé í átt til aukins samruna. Við sjáum raddir og heyrum raddir innan Evrópusambandsins um annað, t.d. frá núverandi stjórnvöldum í Bretlandi, en þær eru mjög einangraðar. Öll lagasetning og breytingar innan Evrópusambandsins á síðustu árum, allar þær breytingar sem hafa verið gerðar á sáttmálum Evrópusambandsins(Forseti hringir.) miða meira og minna að því útvíkka samstarfið og dýpka það, en ekki að auka svigrúm einstakra ríkja.