143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru nokkur atriði sem ég tel að ástæða sé til að gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi finnst mér tal hans og ýmissa hv. flokksfélaga hans, sem leiða það af orðum úr viðauka sem skrifaður er af Stefáni Má Stefánssyni, að líklegt sé, enginn getur fullyrt það, að sérlausnir geti náðst, þá held ég að menn verði að horfa á smáatriðin í því sambandi, meðal annars hvernig þessar sérlausnir, undanþágur eða hvað við köllum það, sem þarna eru tilgreindar hafa komið til. Í flestum tilvikum er um að ræða tilvik frá eldri tíð þegar aðildarferli, aðlögunarferli, var með allt öðrum hætti en það er í dag. Rétt er að hafa það í huga. Dæmin frá hinum Norðurlöndunum eru til dæmis af því tagi.

Í öðru lagi er rétt að geta þess að sjaldnast ef nokkurn tímann er um að ræða varanlegar undanþágur frá grundvallarreglum Evrópusambandsins á þeim sviðum þar sem það hefur fullt forræði.

Í þriðja lagi er rétt að hafa í huga að í mörgum tilvikum eru þessar lausnir þó ekki varanlegri en svo að þeim verður breytt með meirihlutaákvörðunum innan leiðtogaráðs eða framkvæmdastjórnar eftir því um hvers konar lagalegan búning er að ræða í því sambandi. Meðal þess sem hefur breyst í stofnanaumhverfi Evrópusambandsins er að meirihlutaákvarðanir gilda nú í fleiri tilvikum en áður, miklu síður er krafist einróma niðurstöðu en áður var sem hefði þó undir einhverjum kringumstæðum verið ákveðin trygging fyrir nýtt aðildarríki.

Ég held að hv. þingmaður ætti, í staðinn fyrir að hanga á þessu hálmstrái, að lesa (Forseti hringir.) meginniðurstöðu Stefáns Más sem er sú að (Forseti hringir.) varanlegar undanþágur hljóti að teljast verulega ólíklegar.