143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég er líka sammála Stefáni Má. Varanlegar undanþágur munu verða mjög fáar og erfitt að ná þeim fram. Það er rakið. Ég hef sagt það í ræðum mínum hér í dag. Ég hef sagt það frá upphafi. Ég og hv. þingmaður höfum auðvitað rætt þetta mörgum sinnum yfir þennan ræðustól. Við erum ekki að sækja um varanlegar undanþágur. Við erum að sækja um sérlausnir sem eiga að svara tilteknum aðstæðum og förum fram á að þær ríki á meðan þær aðstæður eru fyrir hendi. Ef við tökum aftur dæmið af finnska landbúnaðinum tel ég að formanni Samfylkingarinnar hafi ratast kátlega en þó hnitmiðað á munn hér í gær þegar hann svaraði spurningunni: Hversu lengi mun sú sérlausn vera í gildi gagnvart Finnum, ótímasett? Svar hans var: Á meðan það er kalt í Finnlandi.

Kröfu okkar varðandi þetta tiltekna atriði í sjávarútvegi, þær eru auðvitað fleiri eins og hv. þingmaður veit, væri hægt að setja fram á þann hátt að sérstakt stjórnsvæði yrði í kringum Ísland til að tryggja hagsmuni Íslands á meðan sjávarútvegur væri brýnt, lífsnauðsynlegt hagsmunamál. Það dugar mér vegna þess að ég veit að svo verður á meðan þetta land byggist. Það er svo einfalt.

Ég held því að hv. þingmaður eigi aðeins að spara sér hótfyndni sína um skæklatog og hálmstrá. Ég held að hann eigi miklu frekar að horfa til þess sem hans eigin flokksmenn sögðu. Niðurstaðan í skýrslunni sem Björn Bjarnason skrifaði undir var að þetta væri fær leið, en í skýrslu Hagfræðistofnunar er það í fyrsta skipti sem prófessor í stjórnskipunarrétti og Evrópurétti staðfestir það. Það finnst mér vera mikilvægt.