143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[14:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að enn og aftur er dæmið nefnt um landbúnað á norðurslóðum, í Finnlandi sérstaklega, þá er um að ræða heimild fyrir Finna til þess að styrkja landbúnað á þeim svæðum umfram það sem reglur, almennar reglur, Evrópusambandsins kveða á um. Það er ekki um það að ræða að Finnar hafi fullt forræði á öllum þeim málum sem snerta landbúnað norðan þeirrar línu. Um er að ræða takmarkaða heimild sem varðar fjárstuðning sem þeir þurfa hvort sem er alltaf að sækja um til Evrópusambandsins og fá staðfestingu á framlengingu. Þannig er nú það.

Ég verð að játa að ég tala um hálmstrá, hæstv. forseti, vegna þess að mér finnst eins og menn tali út frá mjög þröngum afmörkuðum dæmum, undanþágur á mjög þröngum sviðum með þeim hætti að það séu fordæmi sem Íslendingar geti nýtt sér til allsherjarundanþágu frá regluverki Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála.